Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekki króna í hjúkrunarrými á Suðurnesjum?
Fimmtudagur 23. apríl 2009 kl. 19:57

Ekki króna í hjúkrunarrými á Suðurnesjum?

Ekki er minnst einu orði á Reykjanesbæ í tilkynningu félags- og trygginamálaráðuneytisins en Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur ákveðið að úthluta um milljarði króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra fyrir árið 2009.

 
Fram hefur komið í Víkurfréttum að í Reykjanesbæ eru 30 einstaklingar í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými.
 
Samtals úthlutar ráðherra 952 milljónum króna til uppbyggingar hjúkrunarrýma, fækkunar fjölbýla á hjúkrunarheimilum, til endurbóta vegna öryggis- og aðgengismála, viðhalds á húsnæði og endurnýjun búnaðar og til uppbyggingar á félagsaðstöðu fyrir aldraða. Alls voru um 1,4 milljarðar króna til ráðstöfunar í sjóðnum og er ráðgert að tæpum 450 milljónum verði úthlutað síðar á þessu ári.
 
Hæstu framlögin renna til byggingar hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut í Reykjavík, 341 milljón króna, hjúkrunarheimilis við Boðaþing í Kópavogi, 135 milljónir króna og hjúkrunarheimilisins Jaðars í Snæfellsbæ, 33 milljónir króna. Á öllum þessum stöðum er unnið að framkvæmdum. Auk þessa fara 115 milljónir króna í uppgjör vegna framkvæmda sem er lokið en voru óuppgerðar af hálfu heilbrigðisráðuneytisins, annars vegar 100 milljónir króna til hjúkrunardeildar á heilbrigðisstofnun Suðurlands og 15 milljónir króna til hjúkrunardeildar á Siglufirði.
 
Af þessari upptalningu má lesa að ekki hafi komið fjárveitingar til Suðurnesja til að taka á brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra lagði til að afgreiðslu tíu umsókna yrði frestað þar sem þörf væri á ítarlegri upplýsingum til skýringa á  til að taka afstöðu til þeirra og féllst ráðherra á það. Hvort Reykjanesbær sé þar á meðal kemur ekki fram í tilkynningu ráðuneytisins.
 
 
Mynd: Komið hefur til tals að breyta auðum öryggisíbúðum á Nesvöllum tímabundið í hjúkrunarrúmi til að mæta brýnni þörf. Reykjanesbær, ásamt nokkrum öðrum sveitarfélögum, eiga í samningaviðræðum við ríkið um svokallaða leiguleið, þ.e. að þau byggi hjúkrarrými sem ríkið síðan leigi. Ekki er komin niðurstaða um leiguverð og sökum skorts á lánsfé í kreppunni er ljóst að ekki verður byggt nýtt hjúkrunarrúmi á næstunni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024