Ekki í verkhring ríkis að halda úti verslunarstarfsemi
- segir Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki
„Áfengisfrumvarpið er mál sem dregur úr verkefnum ríkisins enda ekki í verkahring ríkis að halda úti verslunarstarfsemi að mínu mati. Þá gefur það ríkisvaldinu aukið svigrúm til að verja fjármunum í grunnþjónustu annars vegar og forvarnir hins vegar. En gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að hlutfall áfengisgjalds sem rennur í Lýðheilsusjóð aukist úr einu prósenti af innheimtu áfengisgjaldi í fimm prósent“, segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður úr Suðurkjördæmi um áfengisfrumvarpið.
Vilhjálmur segir líka: „Enn fremur er mikilvægt að benda á að frumvarpinu hefur verið breytt í þá veru að áfengið þarf að vera enn afmarkaðra í verslunum. Sölufyrirkomulagið verður þá líkara því sem það er í ÁTVR í dag eða svokallað „búð í búð“ fyrirkomulag, sem lýsir sér þannig að það er eins konar búð inni í búðinni. Eini munurinn er þá rekstraraðilinn sem yrði einkaaðili í stað ríkisins.“