Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekki í samræmi við starfsleyfi að kísilryk sleppi út
Fulltrúar Umhverfisstofnunar hafa verið í sambandi við forsvarsmenn United Silicon eftir að myndbönd af starfseminni voru birt á vef Stundarinnar.
Fimmtudagur 5. janúar 2017 kl. 06:00

Ekki í samræmi við starfsleyfi að kísilryk sleppi út

Umhverfisstofnun bárust sex kvartanir um lykt frá kísilveri United Silicon í Helguvík á gamlársdag og tvær þriðjudaginn 2. janúar. Að sögn Sigríðar Kristjánsdóttur, teymisstjóra eftirlitsteymis hjá stofnuninni berast kvartanir með nokkuð jöfnu millibili. Á gamlársdag var norðanátt og voru nokkrir íbúar sem tjáðu sig á samfélagsmiðlum um lyktina sem þeir töldu berast frá kísilverinu. 

Á þriðjudagskvöld var birt myndband á vef Stundarinnar þar sem sjá mátti að kísilryk barst frá verksmiðjunni. Fulltrúar Umhverfisstofnunar hafa verið í sambandi við forsvarsmenn United Silicon eftir að myndbandið var birt á vef Stundarinnar. Að sögn Sigríðar er kísilryk ekki eiturefni og ekki skilgreint sem hættulegt efni. „Þetta er samt sem áður ekki framkvæmd sem er eðlileg eða heimil samkvæmt starfsleyfi því að allur reykur skal leiddur í gegnum hreinsivirki,“ segir Sigríður. Atvikið er til skoðunar hjá stofnuninni og að sögn Sigríðar verður því fylgt eftir. Fulltrúar Umhverfisstofnunar fylgjast með fyrirtækinu og kalla reglulega eftir upplýsingum. „Við munum fylgja úrbótaáætlun eftir og eins erum við að vinna að því að fá betri upplýsingar um myndböndin sem voru birt hjá Stundinni. Við munum halda eftirlitinu áfram og ekki slaka á því.“ Ekki var hægt að fá upplýsingar um frekari aðgerðir af hálfu Umhverfisstofnunar að svo komnu máli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að gangsetning verksmiðjunnar hafi ekki gengið sem skyldi. Fjölmargar kvartanir um lyktar- og reykmengun hafa borist til stofnunarinnar auk þess sem að minnsta kosti einn einstaklingur hefur leitað til læknis vegna áhrifa á öndunarfæri. Skýringar á þeim reyk sem sést hefur má rekja til þess að verið var að finna réttar stýringar á afsogi frá ofnum og reykhreinsibúnaði, að því er fram kemur á vef Umhverfisstofnunar. „Lyktin stafar fyrst og fremst af ófullkomnum bruna á lífrænum efnum (timburflís) þar sem ofninn var ekki komin á það stig að vera kominn í jafnvægi og ná því hitastigi þar sem von er á að lyktin eyðist. Við viðarbruna myndast ýmis efni sem geta valdið umræddri lykt og geta þessi efni í litlum styrk valdið ertingu í öndunarvegi og augum. Umhverfisstofnun fundaði með Sóttvarnarlækni í nóvember vegna þessa og einnig vegna ábendinga um hugsanleg heilsufarsleg áhrif vegna áhrifa frá útblæstri verksmiðjunnar. Samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnalækni var ekki að merkja aukningu á veikindum á svæðinu sem rekja má til mengunar frá verksmiðjunni. Ekki var talin þörf á að grípa til aðgerða að svo stöddu en ákveðið að áfram yrði fylgst vel með, bæði af hálfu Sóttvarnalæknis og Umhverfisstofnunar,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.