Ekki grýta lögregluna eða slasa
- segir Sigvaldi Arnar lögreglumaður
„Ég er reiður og orðlaus yfir þessari framkomu í garð landsmanna og vona ég að sem flestir mæti á Austurvöll í dag og hafi hátt,“ segir Sigvaldi Arnar Lárusson lögreglumaður og maður ársins á Suðurnesjum 2015.
Sigvaldi Arnar liggur í flensu í dag en á fésbókarsíðu sinni biðlar hann til þeirra sem fara á Austurvöll í dag til mótmæla að taka tillit til samstarfsfélaga sinna í lögreglunni sem verða í vinnunni við Austurvöll í dag.
„Þeir hafa vissu hlutverki að gegna eins og að sjá til þess að þetta fari fram án þess að fólk slasist eða að eigur fólks séu skemmdar. Sjálfur stóð ég vaktina í Búsáhaldarbyltingunni og upplifði margt miður leiðinlegt þar. En við lögreglumenn erum í sömu sporum og aðrir, við erum með okkar lán eins og aðrir og okkur finnst ekkert af þessu sanngjarnt né rétt. En við erum fagmenn, við erum í vinnunni og vinnum vinnuna okkar vel. Þar sem ég ligg í flensunni þá langar mig til að biðja ykkur öll um að passa upp á vinnufélaga mína í dag og næstu daga. Ekki grýta þá eða slasa,“ segir Sigvaldi Arnar Lárusson lögreglumaður.