„Ekki forræðisdeila, heldur barnsrán“
- Sonurinn kom ekki til baka úr vetrarfríi til móður sinnar
Ragnar Hafsteinsson, faðir úr Keflavík, berst nú fyrir því að endurheimta Adam, sex ára gamlan son sinn, frá Slóvakíu. Drengurinn fór í viku langa heimsókn til móður sinnar sem er búsett þar. Ragnar átti von á drengnum til baka sunnudaginn 11. október síðastliðinn en hefur hvorki heyrt frá syni sínum né barnsmóður. „Þetta er ekki forsjárdeila, heldur barnsrán,“ segir Ragnar. „Hún er búin að slíta öllum samskiptum við mig og ég veit í rauninni ekkert hvar sonur minn er niður kominn. Ég get ekki hringt í móðurina né náð til hennar með öðrum leiðum. Öll fjölskylda hennar er búin að loka á mig á facebook. Ég er búinn að reyna allt en hef ekki fengið nein svör.“
Ragnar og móðir drengsins slitu samvistum árið 2012. Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í apríl 2014 að Ragnar hefði forræði yfir drengnum en að hann skyldi dvelja hjá móður sinni fjórar vikur á hverju sumri og önnur hver jól og áramót. „Hún hefur fengið meiri umgengni en dómurinn kvað á um. Til dæmis fór hann til hennar núna vegna þess að það var vetrarfrí í skólanum.“
Feðgarnir fluttu til Sandnes í Noregi síðasta vor og hóf Adam nám í fyrsta bekk nú í haust. „Hann hefur aðlagast mjög vel, talar góða norsku og á marga vini. Það er því ansi hart að rífa hann í burtu því honum líður vel hér. Samkvæmt lögfræðingnum mínum er þetta erfitt mál að sækja og ef það tekur of langan tíma verður þeim mun erfiðara að fá drenginn til baka. Þá verður hann búinn að skjóta rótum í Slóvakíu og ef hún kemur í veg fyrir samskipti mín við drenginn er það mjög slæmt.“
Ragnar er búinn að tilkynna málið til lögreglu í Noregi, sem vísaði honum á norska dómsmálaráðuneytið. „Ég hef fyllt út alla pappíra þar en hef ekki heyrt neitt meira. Ég hafði líka samband við utan- og innanríkisráðuneyti á Íslandi en veit ekki til þess að neitt hafi verið gert í málinu þar.“ Ragnar bíður nú svara frá utanríkisráðuneyti Noregs og segir næstu skref vera í höndum lögfræðinga sinna. „Þetta er ömurleg staða því ég þarf bæði lögfræðing í Noregi og í Slóvakíu og því fylgir mikill kostnaður.“ Búið er að stofna styrktarsíðu á facebook undir nafninu Bring Adam back home þar sem hægt er að leggja baráttu Ragnars lið.