Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekki forgangsmál að flytja Gæsluna til Keflavíkur
Miðvikudagur 15. nóvember 2006 kl. 17:32

Ekki forgangsmál að flytja Gæsluna til Keflavíkur

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði við utandagskrárumræðu á Alþingi í dag að það væri ekki útilokað að flugstarfssemi Landhelgisgæslunnar verði flutt til Keflavíkur. Hins vegar gat hann þess að það væri ekki forgangsmál að svo stöddu.  Nú væri mikilvægast að huga að ytri umgjörð starfssemi Gæslunnar.

Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, var málshefjandi utandagskrárumræðunnar í dag og spurði ráðherra hvort ekki kæmi til greina að flytja starfssemi Gæslunnar, að hluta eða alla, til Suðurnesja. Húsnæði væri til staðar, s.s. skrifstofur og flugskýli og hafnir. Þá væri öryggisbúnaður á Vellinum betri og vandaðri en í Reykjavík. Hann benti auk þess á að framtíð Reykjavíkurflugvallar væri í óvissu og sá húsnæðiskostur sem Gæslan hefði þar væri ekki í stakk búin til að taka við vaxandi umferð. Aðrir möguleikar hlytu því að verða skoðaðir.

Björn benti á að miklar breytingar væru í gangi hjá Landhelgisgæslunni, t.d. hvað varðar nýsamþykkt lög um hana, endurnýjum þyrlukosts og flutning hennar í Skógarhlíð. Þeir þættir væru aðalatriðið um þessar mundir, það væri ekki forgangsatriði að starfssemi Gæslunnar yrði flutt frá Reykjavíkurflugvelli eða hún brotin þannig upp að hún yrði á fleiri stöðum á landinu. „Ég tel að það sé seinni tíma mál,“ sagði Björn.

„Fari svo að það verði þrengt þannig að starfsvettvangi Gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli, að hún hafi ekki rými til þess að starfa þar, þá liggur í augum uppi að þá verður að flytja flugdeildina annað. Þá er Keflavíkurflugvöllur að sjálfsögðu, og sú aðstaða sem þar er, fyrsti kostur sem menn hljóta að velta fyrir sér,“ sagði Björn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024