Ekki eining hjá meirihlutaflokkum um móttöku flóttamanna
– í Bæjarstjórn Grindavíkur
Ekki var eining í meirihluta bæjarstjórnar Grindavíkur um mótttöku flóttamanna. Tillaga Mörtu Sigurðardóttur, Samfylkingu, um að taka á móti flóttamönnum var samþykkt með fjórum atkvæðum B, S og G-lista á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag. Þrír fulltrúar D-lista sátu hjá og bókuðu að ekki væri tímabært að fara í viðræður við Velferðarráðuneytið um móttöku á flóttamönnum. D-listi er í meirihlutasamstarfi með Grindavíkurlista (G).
Í bókun Sjálfstæðismanna segir: „Eftir skoðun á minnisblaði sem unnið var af bæjarstjóra Grindavíkur er það okkar mat að húsnæðisskortur er í Grindavík og vegur það þyngst við þessa ákvörðun.
Nú þegar hafa allnokkur sveitarfélög boðist til þess að fara í viðræður við velferðarráðuneytið um móttöku á flóttamönnum. Mörg af þeim stærri eru talsvert betur í stakk búin til verkefnisins varðandi þjónustu eins og túlkun, sálfræðiaðstoð, og fl.
Þar sem stjórnvöld hafa ekki tekið ákvörðun um hversu marga flóttamenn á að taka inn til landsins teljum við ekki tímabært að fara í þessa vinnu að svo stöddu. Þegar það skýrist og það verður vöntun á sveitarfélögum til að taka við flóttamönnum, erum við að sjálfsögðu tilbúin til að endurskoða okkar afstöðu.“