Ekki brætt meira í Grindavík þennan veturinn
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir í samtali við Víkurfréttir að mjölverksmiðja Fiskimjöls og lýsis í Grindavík sé ónýtt eftir brunann í dag. Vertíðin í Grindavík sé í uppnámi og ljóst að bræðslan í Grindavík verði ekki notuð meira í vetur. Þorsteinn vildi ekki meta tjónið. Þó væri ljóst að um 2000 tonn af mjöli hafi stoppið undan eldhafinu.
Eldur kviknaði í húsinu á fjórða tímanum eftir að sprenging varð í katli við mjölþurrkara í verksmiðjunni. Fram hefur komið, m.a á vef Morgunblaðsins, að Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Grindavík, hafi haft eftir forsvarsmönnum verksmiðjunnar, að tjónið gæti numið um einum og hálfum milljarði króna en verðmæti í verksmiðjuhúsinu felst aðallega í tækjabúnaði.
Slökkvistarf gengur vel. Slökkvilið Grindavíkur var kallað til og komu 15-20 liðsmenn þess strax á vettvang. Það óskaði síðan eftir liðsauka bæði frá Brunavörnum Suðurnesja í Reykjanesbæ og slökkviliði Keflavíkurflugvallar.
Þorsteinn G. Kristjánsson, blaðamaður og ljósmyndari Víkurfrétta í Grindavík, sagði að reyk frá brunanum hafi ekki lagt yfir byggðina og sé það lán í óláni, þar sem um var að ræða mjög þykkan svartan reyk.
Myndir: Þorsteinn G. Kristjánsson