Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekki bara stráka- og karlastörf
Ólaf­ur S. Magnús­son, þjón­ustu­full­trúi FIT.
Fimmtudagur 9. apríl 2015 kl. 13:13

Ekki bara stráka- og karlastörf

Skortur á fólki í iðngreinar á Suðurnesjum

„Við þurfum miklu fleiri í iðngreinarnar. Ég held að það sé nálægt því að atvinnulífið vanti helmingi fleiri. Viðhorfið til greinanna þyrfti einnig að breytast á heimilum, vinnustöðum og í skólum. Þetta eru góð störf og enginn endapunktur. Iðnnám er t.d. mjög góður undirbúningur fyrir framhaldsnám í háskóla. Mörgum sem klára sína iðnmenntun gengur mun betur í frumgreinanáminu t.d. í Háskólanum í Reykjavík. Þeir hafa betri undirbúning en margur bóknámsnemandinn sem fer úr óskyldum greinum í háskóla,“ segir Ólaf­ur S. Magnús­son, þjón­ustu­full­trúi FIT, stétt­ar- og fag­fé­lags iðnaðarmanna og fólks í tækni­grein­um, í Reykja­nes­bæ, í samtali við Víkurfréttir. Í Morgunblaðinu í morgun var greint frá því að iðnaðarmenn vanti á Suðurnesjum. 

Miklir möguleikar í námi og störfum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ólafur segir að nemendur sem taki mikla stærðfræði í sínu iðnnámi séu betur búnir undir frumgreinanámið og að þeir sem taki raungreinapróf í framhaldsskóla sleppi kannski við frumgreinadeildina og fari beint inn. „Um leið ná nemendur sér í starfsmenntun sem nýtist lífstíðar og í sínu langa námi verið um leið að gera aðra hluti sem kosta peninga. Svo eru þetta ekkert endilega karlastörf. Sem betur fer horfa stelpur til þess að þetta eigi jafnvel vel við þær, t.d. í stóriðjunni eins og álverum, kísilverum og gagnaverum, þar sem skapast hefur ný tegund iðngreinar. Þetta eru bara fín og vel launuð störf. Stelpur geta alveg unnið þar eins og strákar, ekki bara í hárgreiðslu og snyrtifræði, sem betur fer.“ Einnig geti vel verið að margt ungt fólk sé komið með upp í kok af bóknámi sem það eigi að ljúka að mati foreldra, en langi kannski að gera eitthvað annað skapandi. „Þá geta þau farið í iðnnám sem byrjar á stuttu bóklegu námi en svo tekur við verkleg þjálfun og eftir nokkur ár eru þau orðin fullnuma og komin með góðar tekjur,“ segir Ólafur.  

Þarf að tala upp iðngreinar

Að mati Ólafs getur þessi vöntun á fólki í iðngreinar valdið ákveðinni stöðnun eins og var fyrir hrun. „Hún byrjaði fyrr í byggingagreinunum því það var búið að byggja svo mikið og við vorum komin fram úr okkur. Þá kom upp neikvæð umræða og iðngreinarnar talaðar niður. Mikið var af erlendu vinnuafli og störfin og aðbúnaðurinn þóttu ekki aðlaðandi eða ákjósanleg. Mörg fyrirtæki voru heldur ekki með aðbúnaðarmál í lagi. Þetta hafði þau áhrif að unga fólkið, sem hafði áhuga á slíkum greinum, varð fráhverfara þeim.“ Hann segir raunin í dag vera þá að fólk sé eftirsótt á þessum vettvangi og aðspurður bætir hann við að vonandi verði það til þess að tekjur hækki við svona eftirspurn og þenslu. „Taxtarnir eru svo lágir og endurspegla ekki meðaltalslaunin. Almenni markaðurinn greiðir betri laun en ríki og sveitarfélög.“ 

VF/Olga Björt