Ekki bara bjargvættur
Markahrókurinn Þórarinn Kristjánsson er knattspyrnuáhugamönnum að góðu kunnur, enda hefur hann verið einn af burðarásum Keflavíkurliðsins um árabil þrátt fyrir að hann sé enn ungur að árum.
Hann skapaði sér orðspor í upphafi ferilsins að vera réttur maður á réttum stað og hefur hann bjargað sínum mönnum úr margri klípunni. Sökum þess hefur viðurnefnið „Bjargvætturinn" fest við hann og raunar mun lengur en góðu hófi gegnir.
Hann er meðal markahæstu manna Keflavíkur frá upphafi en nú er útlit fyrir að mörkin verði ekki fleiri í bili því Þórarinn er staðráðinn í að komast á samning sem atvinnumaður á nýju ári.
Víkurfréttir tóku hús á Þórarni og fjölskyldu hans, unnustunni Sóleyju Sverrisdóttur og syni þeirra Gabríel Lár, kvöldinu áður en hann hélt út til Noregs til að spreyta sig hjá þarlendu liði.
Kornungur markaskorari stimplar sig inn
„Ég var 15 ára þegar ég lék minn fyrsta leik með Keflavík. Ég kom inná í lokaleiknum 1996 gegn ÍBV og skoraði sigurmarkið sem bjargaði okkur frá falli það árið. Eftir það fékk ég þetta viðurnefni „Bjargvætturinn" sem hefur fylgt mér síðan. Það er nú ekkert voðalega skemmtilegt lengur og höfum við rætt þetta mikið innan fjölskyldunnar," segir Þórarinn og brosir til Sóleyjar. „Maður er orðinn ansi pirraður á því. Þetta var gaman á sínum tíma þegar maður var ungur, en það eru komin þrjú eða fjögur ár síðan að þetta mátti missa sín."
Þórarinn, sem vann í sumar annan bikarmeistaratitil sinn fyrir Keflavík, er löngu orðinn miklu meira en bjargvættur fyrir lið sitt þar sem hann hefur þegar skákað mörgum annáluðum köppum og síðast í sumar skaust hann uppfyrir Jón Ólaf Jónsson á listanum yfir markahæstu menn frá upphafi. Hann segist una sér vel í Keflavík.
„Ég er búinn að vera að spila með flestum þessara stráka frá því að ég man eftir mér. Stebbi er nýkominn inn og svo var Zoran gamlinginn var búinn að vera lengi, en í raun er kjarninn uppalinn í yngri flokkunum og við þekkjum hvern annan vel. Það er alltaf gaman á æfingum og vita að hverju maður gengur."
Sjóðheitur í sumar
Í upphafi sumars var Þórarinn að ná sér eftir hnéaðgerð og var ekki að finna netmöskvana. Breyting varð þó á um mitt sumar þar sem hann fór fyrir sínum mönnum og skoraði hann 12 mörk í síðustu 13 leikjum sumarsins í deild og bikar. Á sama tíma stórlagaðist leikur liðsins eftir nokkra lægð og þeir kláruðu tímabilið með glæsibrag.
„Það kom fyrir að þetta datt alveg niður hjá okkur. Það voru 4-5 leikir í röð sem voru alveg skelfilegir. Inn á milli vorum við samt að spila dúndurbolta og svo náðum við okkur upp á úrslitastundu í leikjunum á móti Fylki og Víkingi. Þeir sigrar björguðu okkur eiginlega frá falli þó að við höfum klárað um miðja deild."
Æfði með Arsenal og Manchester
Eftir frammistöðu sína í sumar hefur Þórarinn verið eftirsóttur af félögum bæði innanlands og utan. Samningur hans við Keflavík rann út fyrir skemmstu og hefur því verið í ýmsu að snúast hjá kappanum sem hefur senst út um víða veröld til að spreyta sig hjá áhugasömum liðum. Hann hefur nokkra reynslu af þess háttar málum því á sínum yngri árum var hann til reynslu hjá nokkrum af stærstu klúbbum heims.
„Ég fór fyrst til reynslu hjá Malmö þegar ég var 16 ára og þeir buðu mér samning sem ég hafnaði sjálfur. Svo fór ég líka til stórra klúbba eins og Manchester United og Arsenal í Englandi."
Þórarinn segir dvölina á Old Trafford og Highbury hafa verið ótrúlega upplifun og einkennilegt, en samt gaman, að æfa í námunda við stórstjörnur eins og Giggs og Beckham.
„Í þau skipti fór ég ekkert endilega út með það að sjónarmiði að fá samning heldur bara að prófa og sjá. Þetta var ómetanleg reynsla og ég mæli með slíku fyrir alla sem eiga tækifæri á því."
Búinn að sanna sig á Íslandi
Á meðal áfangastaða á ferðalögum Þórarins í haust og vetur var stórlið Busan Icons í Suður-Kóreu. Þótti honum það góður kostur og bíður eftir svari. „Það gæti verið spennandi að fara þangað enda er spilaður fínn fótbolti en ég er að fara til Bryne og svo er enn inni i dæminu að fara til Örgryte í Svíþjóð og til Aberdeen í Skotlandi. Það verður þó ekki fyrr en eftir áramót. Þetta er búið að vera ágætt núna," segir Þórarinn og brosir.
Álagið á fótboltaiðkendur er oft mikið þar sem drjúgur tími fer í æfingar, ferðalög og leiki. Hefur hann þá nægan tíma til að sinna fjölskyldunni og öðrum hugðarefnum?
„Ekki nógan tíma," svarar Þórarinn og gjóar augunum á Sóleyju. "Hún þarf bara að sætta sig við þetta í tíu ár í viðbót," bætir hann við og þau skella bæði uppúr.
Sóley aðspurð ekki setja fyrir sig að fylgja Þórarni í atvinnumennskuna og er fullviss um að þau getu fundið sig hvar sem er.
„Ég fer út með því hugarfari að kýla á þetta. Ég er laus undan samningi og er búinn að spila í deildinni hér á Íslandi í níu ár og sé ekki ástæðu til að bæta einu við. Ég er búinn að sýna og sanna hér og ég vona að ég hafi það sem til þarf til að ég endi í einhverri deild úti í heimi sama hvar það verður," segir Þórarinn að lokum ákveðinn í fasi.
Að loknu viðtalinu heldur Þórarinn áfram að búa sig undir ferðina daginn eftir. Hann er tilbúinn til að skapa sér nafn úti í hinum stóra heimi knattspyrnunnar og losa sig við stimpilinn sem hefur fylgt honum svo lengi. Tóti er ekki bara bjargvættur.
Eftir Þorgils Jónsson – [email protected]