Ekki alveg á sama stað og höfuðborgarsvæðið
-segir Sighvatur Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka
„Þegar við berum saman þjóðhagsspá bankans við stöðuna á Suðurnesjum þá er ljóst að við erum kannski ekki alveg komin á sama stað og t.d. höfuðborgarsvæðið. Við höfum hér á svæðinu t.d. verið að glíma við erfiðari stöðu í atvinnulífinu þó við sjáum jákvæð teikn á lofti. Kaupmáttur hefur því kannski almennt ekki vaxið jafn hratt hér og við hefðum viljað auk þess sem eignaverð hefur ekki hækkað hér að neinu ráði og þar af leiðandi höfum við ekki séð skuldahlutföll lækka jafn hratt og á höfuðborgarsvæðinu. Það eru þó almennt jákvæðar horfur í efnahagslífinu og það mun sannarlega skila sér inn á Suðurnesin,“ sagði Sighvatur Gunnarsson, útibússtjóri Íslandsbanka eftir morgunverðarfund bankans um efnahagsmál í vikunni.
Hver er þín skoðun á framgangi fyrirtækja á Suðurnesjum á næstunni?
„Ég er mjög bjartsýnn gagnvart viðskiptalífinu hér á Suðurnesjum og hægt að sjá tækifæri víða. Sjávarútvegurinn hefur verið að gera ágætis hluti og hefur eflst t.d. með breytingum hjá Vísi í Grindavík. Við sjáum einnig fyrirtæki vera að fjárfesta í þessum geira í Garði og Sandgerði. Það eru gríðarlegar fjárfestingar í tengslum við ferðamannageirann hér á svæðinu og er nóg að nefna framkvæmdir hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli og fyrirhugaðar framkvæmdir hjá Bláa Lóninu. Einnig má nefna mikla uppbyggingu í fiskeldi með tilkomu Stolt Seafarm úti á Reykjanesi. Mikil fjárfesting liggur í Helguvík og ég er bjartsýnn á að atvinnusvæðið skili allavega að einhverju leiti þeirri uppbyggingu sem við höfum verið að vonast eftir á næstunni.Það væri hægt að telja upp mörg önnur dæmi um þá uppbyggingu sem nú er að eiga sér stað á Suðurnesjum. Ég tel því að það séu skilyrði framundan fyrir fyrirtæki á Suðurnesjum til þess að vaxa og gera góða hluti.“
Þrír þekktir viðskiptamenn frá Suðurnesjum, Aðalheiður Héðinsdóttir úr Kaffitári á spjalli við Magna Sigurhansson úr Álnabæ. Á milli þeirra má greina Ómar Valdimarsson, forstjóra Samkaupa.
Fjöldi Suðurnesjamanna sótti morgunverðarfundinn hjá Íslandsbanka.