Ekki afstaða bæjarstjórnar sem ræður ákvörðunum Heilbrigðisnefndar Suðurnesja
- segir meirihluti bæjarstjórnar í Garði og Sandgerði um starfsleyfi fyrir heitloftsþurrkun á fiskafurðum í Garði
Vegna ákvörðunar Heilbrigðisnefndar Suðurnesja á 273. fundi hennar um að veita tímabundið leyfi til reksturs heitloftsþurrkunar í Garði vilja bæjarfulltrúar D-lista og J-lista árétta að afstaða bæjaryfirvalda Sveitarfélagsins Garðs frá því í maí 2017, um að heitloftsþurrkun fiskafurða skuli alfarið hætt í sveitarfélaginu, er enn í fullu gildi enda eiga allir íbúar sveitarfélagsins rétt á að búa í umhverfi sem laust við mengun af hvaða toga sem hún er. Nefndinni var kunnugt um þessa afstöðu meirihlutans þegar ákvörðun var tekin í málinu. Það er hins vegar ekki í valdi bæjarstjórnar að veita starfsleyfi heldur gerir heilbrigðisnefnd það sem sjálfstætt stjórnvald. Nefndin starfar innan þess ramma sem lög og reglur setja henni sem og þeim forsendum sem liggja fyrir hverju sinni. Það er því ekki afstaða bæjarstjórnar sem ræður þeim ákvörðunum sem Heilbrigðisnefnd Suðurnesja tekur,“ segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar, D- og J-lista, sem lögð var fram á síðasta fundi bæjarstjórnar sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis.
Fundargerð Heilbrigðisnefndar var til meðferðar bæjarstjórnar í síðustu viku þar sem hún var lögð fram en sjö af níu bæjarfulltrúum í bæjarstjórn sáu ástæðu til að ræða efni fundargerðarinnar. Óánægju gætir meðal íbúa í Garði sem finnst þeir hafa verið sviknir af loforðum í aðdraganda kosninga í vor. Lyktarmengun frá starfsemi heitloftsþurrkunar á fiskafurðum hefur verið íbúum í Garði til ama á undanförnum misserum. Engin starfsemi heitloftsþurrkunar hefur verið í sumar en að fengnu leyfi Heilbrigðisnefndar Suðurnesja hefst starfsemin nú að nýju með tímabundnu leyfi til 31. maí 2019.
Á fundi bæjarstjórnar Garðs og Sandgerðis í síðustu viku lagði fulltrúi B-lista fram svohljóðandi tillögu:
„Tillaga um að ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurnesja um tímabundið starfsleyfi á heitlofsþurrkun fiskafurða að Iðngörðum 10a verði hafnað af bæjarstjórn Sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis og að formaður Heilbrigðisnefndar Suðurnesja kalli saman nefndarfund til að afturkalla leyfið“.
H-listi lagði fram eftirfarandi bókun á fundinum:
„Svikin loforð um að heitloftsþurrkun yrði alfarið hætt í Garðinum eftir maí 2018. Meirihluti D og J lista sitja aðgerðalaus hjá meðan fjöldi íbúa Garðs sjá fram á alvarlega skert lífsgæði næstu mánuðina“.
Fulltrúi B-lista bókaði einnig á fundinum að B-listinn fordæmi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og meirihluta bæjarstjórnar um að leyfa heitlofsþurrkun fiskafurða að Iðngarði 10a í Garði.
„Íbúar í námunda við verksmiðjuna hafa á undanförnum árum orðið fyrir töluverðum óþægindum og hafa skilyrði til búsetu verið hin verstu á tímabilum. Loforð og fyriráætlanir um betri aðbúnað fyrirtækins hingað til hafa ekki staðist. Það er því von mín og ég held að ég tali fyrir hönd flestra íbúa í námunda við Iðngarða að fyrirtæki taki tilliti til íbúa og hætti við áform sín um áframhaldandi heitlofsþurrkun fiskafurða á svæðinu,“ segir Daði Bergþórsson, bæjarfulltrúi B-listans í bókuninni.
Ólafur Þór Ólafsson bæjarfulltrúi óskaði eftir fundarhlé sem forseti veitti. Eftir fundarhléð var tillaga B-listans felld með sex atkvæðum gegn einu frá B-lista. Fulltrúar H-lista sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Ólafur Þór gerði grein fyrir afstöðu meirihluta við tillögu B lista og bókaði: „Fulltrúar meirihlutans hafna tillögu B-listans þar sem það er ekki í valdi bæjarstjórnar að samþykkja eða hafna starfsleyfi. Það vald er hjá HES [Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja], sem er sjálfstætt stjórnvald, enda kom sá skilningur fram í máli bæjarfulltrúans Daða Bergþórssonar á fundinum. Samt sem áður ákveður hann að leggja fram tillögu sem ekki fæst staðið og eru slík vinnubrögð ekki til eftirbreytni,“ segir í bókun Ólafs.
Meirihluti bæjarstjórnar, D- og J-lista, lagði að lokum fram bókun sem getið er um í inngangi fréttarinnar. Afgreiðsla bæjarstjórnar var svo að fundargerðin var lögð fram en bæjarstjórn hefur ekki vald til að breyta ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar.
Í heilbrigðisnefndinni situr m.a. bæjarfulltrúinn Haraldur Helgason fyrir sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis. Hann er jafnframt formaður Heilbrigðisnefndar Suðurnesja. Hann sat bæjarstjórnarfundinn í síðustu viku sem bókaði áréttingu um að afstaða bæjaryfirvalda Sveitarfélagsins Garðs frá því í maí 2017, um að heitloftsþurrkun fiskafurða skuli alfarið hætt í sveitarfélaginu, væri enn í fullu gildi.
Bæjarfulltrúi í snúinni stöðu í heilbrigðisnefndinni
Bæjarfulltrúar D-lista og J-lista áréttuðu á síðasta fundi bæjarstjórnar Sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis „að afstaða bæjaryfirvalda Sveitarfélagsins Garðs frá því í maí 2017, um að heitloftsþurrkun fiskafurða skuli alfarið hætt í sveitarfélaginu, er enn í fullu gildi enda eiga allir íbúar sveitarfélagsins rétt á að búa í umhverfi sem [er] laust við mengun af hvaða toga sem hún er. Nefndinni [Heilbrigðisnefnd Suðurnesja] var kunnugt um þessa afstöðu meirihlutans þegar ákvörðun var tekin í málinu,“ segir í bókun meirihlutans í Garði og Sandgerði.
Fulltrúi Sameinaðs sveitarfélags í heilbrigðisnefndinni er Haraldur Helgason en hann er einnig bæjarfulltrúi í sveitarfélaginu. Hann tók þátt í að samþykkja tímabundið starfsleyfi til heitloftsþurrkunar á fiskafurðum í Garði til 31. maí 2019. Með atkvæði sínu í Heilbrigðisnefnd Suðurnesja, sem er sérstakt stjórnvald, fer Haraldur því í raun gegn samþykkt sveitarfélagsins um að heitloftsþurrkun skuli alfarið hætt.
„Fulltrúar sveitarfélaganna í nefndinni geta sannarlega lent í snúinni stöðu þegar þeir eru að fjalla um mál sem tengjast þeirra sveitarfélagi og það á við í þessu máli. Afstaða meirihlutans og þar með bæjarstjórnar í málinu er alveg skýr, lyktamengandi starfsemi á ekki heima í þéttbýli en það er líka skýrt að það er ekki bæjarstjórn sem fer með ákvörðunarvald í þessu í máli. Það vald liggur hjá heilbrigðisnefndinni og þar þarf að taka ákvarðanir út frá lögum og reglum og fyrirliggjandi gögnum. Ég treysti því að nefndin hafi farið vandlega yfir alla þætti í málinu áður en hún tók ákvörðun og þetta varð niðurstaðan,“ sagði Ólafur Þór Ólafsson, formaður bæjarráðs Sameinaðs sveitarfélags í samtali við Víkurfréttir.