Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ekkert tungumál er öðru æðra
Miðvikudagur 7. september 2016 kl. 06:00

Ekkert tungumál er öðru æðra

Samfélagið í Garðinum ber sterkan keim af fjölmenningarsamfélagi og í dag eru 19 börn af 84 börnum í leikskólanum Gefnarborg sem eiga tvö eða fleiri móðurmál. Á leikskólanum eru töluð samtals átta tungumál. Ingibjörg Jónsdóttir tók við stöðu leikskólastjóra þar síðasta haust en áður hafði hún verið aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Hjallatúni í Reykjanesbæ þar sem hún meðal annars sinnti íslenskukennslu fyrir tvítyngd börn. Hún er nú á lokaspretti í meistaranámi í leikskólakennarafræðum og hefur lagt sérstaka áherslu á mál, læsi og tvítyngi. „Mín skoðun er sú að leikskólinn spili stórt hlutverk í lífi barnanna hvað varðar málþroska, hvort sem þau eru eintyngd eða tvítyngd.  Það er mjög mikilvægt að skapa tungumálaumhverfi þar sem öll börn geti notið sín,“ segir hún.

Fagna fjölbreytileikanum í Garði
Mikil áhersla hefur verið lögð á það á Gefnarborg að margbreytileiki samfélagsins í bæjarfélaginu fái sín notið sem best. Ingibjörg segir móðurmál hvers barns gríðarlega mikilvægt fyrir sjálfsmynd þess og því er lögð áhersla á að gera öllum tungumálum jafn hátt undir höfði. „Það gerum við til dæmis með því viðhorfi að öll börn standi jafnfætis. Það er ekki á neinn hátt síðra að börnin eigi sér annað tungumál en íslenskuna að móðurmáli,“ segir Ingibjörg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikskólinn Gefnarborg vann þróunarverkefni frá árinu 2014 til 2016 sem nefnist ,,Brú milli tungumála” og hlaut verkefnið styrk frá Erasmus+, menntastefnu Evrópusambandsins. Markmið verkefnisins var að styrkja máltöku og læsi barna af erlendum uppruna, stuðla að því að börn af erlendum uppruna verði sem best tilbúin til þess að takast á við íslenska skólagöngu og styðja við og aðstoða erlenda foreldra í stuðningshlutverki sínu varðandi máltöku og læsi barna á íslensku.  Leiðir til að ná markmiðum verkefnisins voru meðal annars að vinna með fjölbreytta málörvunarleiki í spjaldtölvum. Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur lagði tvisvar sinnum mat á orðaforða allra barna af erlendum uppruna á þessu tímabili og sýndu niðurstöður aukningu á töluðum orðaforða og skilningi á öllum deildum leikskólans. Mest var aukningin hjá elstu börnunum, þau yngstu stóðu í stað í töluðum orðaforða en sýndu hækkun á skilningi orða. 

Innleiða nýja hugmyndafræði
Á komandi skólaári ætlar starfsfólk leikskólans Gefnarborgar að halda áfram og auka enn meira við það góða starf sem unnið er. „Markmiðið er að efla fjölmenningarlegan skólabrag og móta stefnu um fjölmenningu innan leikskólans. Einnig að gera fjölmenninguna enn sýnilegri og gera öll börn, starfsfólk og aðstandendur enn betur meðvituð um mikilvægi þess að virða og hlusta á raddir ólíkra menningarheima, vinna gegn fordómum og auka víðsýni. Við starfsfólkið á Gefnarborg vonum að þessi markmið eigi eftir að skila sér áfram til alls samfélagsins.“

Hugmyndafræðin sem leikskólinn Gefnarborg ætlar að styðjast við til að ná fram settum markmiðum nefnist Linguistically Appropriate Practice og kemur frá Kanada. „Lykilþráðurinn í hugmyndafræðinni er að viðurkenna móðurmál hvers og eins og líta á það sem styrkleika fremur en veikleika. Það er mikilvægt að flétta fjölmenningunni saman við allt daglegt starf og efla samstarf milli heimilis og leikskóla,“ segir Ingibjörg.

Góður framburður getur blekkt
Algengur misskilningur er að því yngri sem börn eru þegar þau byrji að læra annað tungumál, því fljótari séu þau að læra. Ingibjörg útskýrir að rannsóknir sýni að því yngri sem börn séu þegar þau flytji til annarra landa því lengur séu þau að ná kunnáttu í báðum málum, það er móðurmáli sínu og nýja tungumálinu. „Börn sem flytja ung eru að læra tvö mál samtímis og hafa ekki þann bakgrunn sem eldri börn búa yfir þegar þau flytja til annarra landa. Bakgrunnsþekking þeirra sem flytja eldri til annarra landa hjálpar þeim að nota undirliggjandi færni og þekkingu til að yfirfæra á annað mál. Eins er það þannig, þrátt fyrir ólíka menningarheima, að þá eru margar samlíkingar. Eftir því sem nemendur eru eldri þegar þeir flytja til annarra landa því móttækilegri eru þeir fyrir því að lesa í menningu þess lands.“ Þá bendir Ingibjörg á að því eldri sem börn eru þegar þau flytja til annarra landa þá búi þau yfir meiri málkunnáttu og hafi ákveðna færni í því sem hægt er að kalla skólamál og geti notað þessa þekkingu til að yfirfæra yfir á nýtt mál. „Þau sem eldri eru, eru samt sem áður í kapp við tímann, því að á sama tíma og þau eru að ná upp góðum orðaforða halda eintyngdir jafnaldrar þeirra einnig áfram að auka akademískan orðaforða sinn og færni í öllum námsgreinum.“

Að sögn Ingibjargar geta börn verið mjög fljót að ná orðaforða sem þau nota í daglegu máli og eftir því sem börnin eru yngri geti þau náð mjög góðum framburði og hljómað því alveg eins og innfæddir í sínum daglegu samskiptum. „Mikilvægt er að kennarar láti ekki blekkjast og hugi vel að orðaforðakennslu tvítyngdra barna.“  Þá segir Ingibjörg mikilvægt í leikskólum að nýta tækifærin til að vinna markvisst með börn í smærri hópum en gengur og gerist í grunnskólum. Á Gefnarborg fá tvítyngd börn markvissa orðaforðakennslu í íslensku samhliða því sem þau finna að móðurmál þeirra er viðurkennt í öllu daglegu starfi leikskólans. Á leikskólanum eru starfsmenn með pólsku og spænsku sem móðurmál og segir Ingibjörg það mikil forréttindi og nýtast vel við þjálfun orðaforða barna með þessi móðurmál.

Kenna orðaforða í samstarfi við foreldra
Ein kennsluaðferðin sem stuðst er við í kennslu orðaforða á Gefnarborg er Orðaspjallsaðferðin en með henni fá foreldrar tækifæri til að taka þátt með því að vera í samstarfi við starfsmenn leikskólans við að þýða orðin sem verið er að vinna með yfir á móðurmál þeirra. „Því miður var það svo hér áður fyrr að stundum var það litið hornauga að börn væru að alast upp við að vera tvítyngd og jafnvel dæmi um að foreldrum hafi verið ráðlagt eða bannað að tala móðurmál sitt við barn sitt. Enn í dag þurfa kennarar að vera vakandi yfir því að minna foreldra á það að tala móðurmál sitt við börnin sín.  Móðurmál hefur áhrif á sjálfsmynd fólks og er nátengt menningararfi þess og því getur móðurmálsmissir haft í för með sér djúpstæðar tilfinningalegar afleiðingar.“

[email protected]

Foreldri frá Úkraínu færði Gefnarborg úkraínska fánann að gjöf.