Ekkert tjaldsvæði í Reykjanesbæ árið 2013?
„Þetta er síðasta sumarið sem við munum reka tjaldsvæði hérna,“ segir Einar Þór Guðmundsson framkvæmdarstjóri Alex gistiheimilis í Reykjanesbæ. Þar með er ekkert tjaldsvæði í Reykjanesbæ en það verður að teljast óvenjulegt í bæjarfélagi sem telur yfir 14.000 íbúa. Einar sagði í samtali við Víkurfréttir að sumarið í ár hefði verið með svipuðu móti og undanfarin ár hvað umferð varðar, en Alex hefur nú rekið tjaldsvæði í 10 ár. Einar segir nánast enga Íslendinga heimsækja tjaldsvæðið og að flestir kúnnarnir séu erlendir ferðamenn sem gisti fyrstu nóttina sína eftir komu til landsins og svo þá jafnan líka síðustu nóttina hér á landi.
Einar segir ástæðurnar fyrir því að Alex ætli sér að hætta að bjóða upp á tjaldgistingu vera þá að fyrirtækið ætli sér að einblína á önnur gistirými en alls eru um 50 smáhýsi og herbergi í boði fyrir ferðamenn í húsakynnum Alex Gistihúss. Ólíkir hópar sæki í þessar mismunandi gistingar að sögn Einars sem fari ekki endilega vel saman.
Guðlaugur H. Sigurjónsson Framkvæmdarstjóri Umhverfis og skipulagssviðs Reykjanesbæjar sagði aðspurður að það væri verið að skoða þessi mál og þau yrðu tekin upp til umræðu á næstunni.
Guðlaugur sagði jafnframt að auðvitað yrði að vera tjaldsvæði þjónusta í bæjarfélaginu. Sagði hann að jafnvel mætti m.a. nýta gamla fótboltavöllinn á Iðavöllum, sem ekki er lengur í notkun undir tjaldsvæði en hann býst ekki við að miklum fjármunum verði varið í framkvæmdir.
„Við höfum náð að láta dæmið ganga upp á viðburðum eins og Ljósanótt með því að bjóða upp á gistingu við skóla bæjarins og víðar,“ sagði Guðlaugur að lokum.