„Ekkert skrýtið þó soðið hafi uppúr“
„Í sjálfu sér er ekkert skrýtið þó soðið hafi upp úr hjá okkur hérna á svæðinu því við erum búin að vera með mesta atvinnuleysið í svo langan tíma, lengur heldur en þetta kreppuástand hefur verið. Hér hefur verið unnið af miklu kappi að því að fá ný störf inn á svæðið svo snúa megi þessari þróun við. Það er vel skiljanlegt að grunnt sé niður á kvikuna þegar við fáum svona meðhöndlun eins og við fengum hjá umhverfisráðherra um daginn,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður VSFK, um fyrirhugaða Keflavíkurgöngu á sunnudaginn.
Að sögn Kristjáns verður nú í vikunni kynnt ný könnun Gallups á meðal félagsmanna í stéttarfélögum á suðvesturhorninu eða svokölluðum Flóafélögum.
„Könnunin sýnir m.a. að um 16% félagsmanna VSFK eru atvinnulausir. Gremjan og reiði fólks leynir sér ekkert í svörunum í gegnum alla könnunina. Það er þungt hljóð í fólki sem býr við þessar aðstæður,“ segir Kristján.
Í könnuninni er meðal annars spurt sérstaklega um áhrifin af hruninu og atvinnuleysinu. „Atvinnulausir í könnuninni eru því miður að upplifa sig alltof afskipta. Þeir fá ekki þjónustu og eru búnir að vera atvinnulausir í fjóra mánuði áður en þeir fá einhver viðbrögð frá Vinnumálastofnun, svo það er ekkert skrýtið þó hljóðið sé þungt. Nú þurfum við að fara getað svarað þessu fólki af eða á,“ segir Kristján.
Hann segir stöðugleikasáttmálan hafa verið þýðingarmikið plagg í augum Suðurnesjamanna en efndirnar af hálfu ríkistjórnarinnar hafi því miður verið lélegar. Ekkert bóli á þeim lausnum sem þar áttu að koma t.d. í virkjunarmálum, sem skipti miklu máli fyrir Suðurnesjamenn. Hér sé fullt af tækifærum en orkuna vanti.