Ekkert bendir til þess að kvikusöfnun undir Svartsengi sé að hætta
Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi hefur haldið áfram á svipuðum hraða síðustu vikuna. GPS-mælingar á Svartsengissvæðinu sýna að landris er stöðugt. Í síðustu viku sýndu líkanreikningar, sem byggja á GPS gögnunum, að örlítið hafi dregið úr kvikuinnflæði undir Svartsengi. Ekkert bendir til að það hafi dregið meira úr hraðanum. Ekkert í gögnum bendir til þess að kvikusöfnun undir Svartsengi sé að hætta, segir í nýrri tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Færslur á GPS stöðinni SENG við Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (16. október) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu sex eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars, 29. maí og 22. ágúst 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).
Lærdómur af fyrri kvikuhlaupum og eldgosum nýtist við að meta hversu mikið magn af kviku þarf að bætast við undir Svartsengi til að koma af stað næsta atburði. Í síðasta eldgosi, þann 22. ágúst, gerðu líkanreikningar ráð fyrir því að um 24 milljón m3 af kviku hafi farið úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina. Þróunin hefur verið sú að jafn mikil eða meiri kvika þurfi að safnast fyrir í kvikuhólfinu heldur en fór úr því í fyrri atburði til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi.
Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða og undanfarið er líklegasta sviðsmyndin sú að annað kvikuhlaup og mögulega eldgos verði á Sundhnúksgígaröðinni í kjölfarið. Enn er töluverð óvissa um tímann fram að næsta mögulega kvikuhlaupi og eldgosi. Vel verður fylgst með áframhaldandi þróun kvikusöfnunar og reynt að meta tímann fram að næsta atburði.
Uppfært hættumat er óbreytt
Hættumat hefur verið uppfært og er óbreytt. Enn er þó talin hætta vegna jarðfalls ofan í sprungur á svæði 4 í Grindavík. Hættumatið gildir til 29. október, að öllu óbreyttu.
(Smellið á kortið til að sjá það stærra)
Fyrirvari vegna yfirvofandi eldgoss getur verið mjög skammur
Fyrstu merki um kvikuhlaup eru áköf jarðskjálftahrina, hröð aukning í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum. Sá tími sem líður frá því að fyrstu merki mælast þangað til að mögulegt eldgos hefst, getur verið mjög skammur, allt niður í 30 mínútur eins og í síðasta eldgosi þann 22. ágúst.