Ekkert athugavert við byggingu Reykjaneshallar-var niðurstaða eftirlitsstofnunar EFTA
Eftirlitsstofnun EFTA hefur tilkynnt að máli, er varðaði byggingu Reykjaneshallar, hafi verið lokið að hálfu stofnunarinnar. Engar athugasemdir voru gerðar vegna framkvæmdanna.Jónína Sanders (D) vakti athygli á málinu á bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar sl. þriðjudag. „Þessi niðurstaða sýnir að ekkert hafi verið athugavert varðandi lögboðna framkvæmdaröð. Mörg hörð orð féllu úr þessum ræðustól fyrr í vetur“, sagði Jónína og beindi orðum sínum til fulltrúa minnihlutans, „en við í meirihluta sögðum alltaf að best væri að spyrja að leikslokum. Farið var eftir settum reglum við þessa framkvæmd og engin lög brotin“, sagði Jónína.Jóhann Geirdal (S) var ekki sammála Jónínu og sagði hana oftúlka niðurstöðu EFTA. „Það er engin hreinsun á sök þó að málinu hafi verið lokað“, sagði Jóhann.Ellert Eiríksson (D) bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði að EFTA hefði dómsvald í slíkum málum og ekki væri um oftúlkanir að ræða. „EFTA bað um upplýsingar og gögn, sem hún fékk og dró niðurstöður af þeim. Ef ranglega er staðið að framkvæmdum þá fær viðkomandi háar fjársektir, og til eru dæmi þess. Við hefðum því örugglega fengið sekt ef eitthvað hefði verið athugavert við framkvæmdina. EFTA hefur ekki lokað málinu að ástæðulausu“, sagði Ellert.