Ekið aftan á kennslubifreið og yfir hringtorg
- Umferðarskilti festist undir bifreið sem varð óökuhæf.
Talsvert var um umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. Bifreið var ekið aftan á aðra sem var í ökukennslu. Atvikið átti sér stað við hraðahindrun. Tjón var minnháttar og engin meiðsli á fólki.
Þá ók ökumaður þvert yfir hringtorg við gatnamót Grænásvegar og Reykjanesbrautar. Hann ók niður umferðarskilti með akstursstefnumerkjum. Skiltið var fast undir bifreiðinni og því ekki hægt að aka henni af vettvangi. Ökumaður og farþegi settu tjakk undir bifreiðina og náðu að losa skiltið undan henni.
Loks varð bílvelta á Garðvegi. Lá bifreiðin á hliðinni er lögreglumenn komu á vettvang. Ökumaður kenndi sér ekki meins, en var þó fluttur á Heilbrigðissstofnun Suðurnesja til frekari skoðunnar.