Ekið á sex ára barn
Ekið var á sex ára barn í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Var það á hlaupum yfir götu ásamt öðru barni þegar atvikið átti sér stað. Barnið var flutt til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og reyndist það ekki hafa slasast alvarlega.
Þá voru fáeinir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Tveir þeirra mældust á 130 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km. Hinir óku hægar.
Ökumaður sem lögregla tók úr umferð vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna var með ungt barn sitt í bifreiðinni. Sýnatökur á lögreglustöð staðfestu neyslu hans og var tilkynning send til barnaverndarnefndar.