Ekið á flugvél WOW air við Keflavíkurflugvöll
Flugvél frá WOW air komst ekki til Parísar í morgun eins og áætlun gerði ráð fyrir en óhapp kom upp þegar verið var að vinna að hleðslu á farangri. Farangursbíl var ekið á flugvélina og kom við það örlítil dæld á skrokk vélarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Svanhvíti Friðriksdóttur upplýsingafulltrúa WOW air, eru strangar reglur um það að ekki megi fljúga vél nema hún hafi verið skoðuð gaumgæfilega eftir óhapp, og því var gripið til þess ráðs að leigja aðra vél. Sú vél kemur frá Evrópu en hún mun sækja farþega í París sem bíða þar eftir flugi til Íslands.
Svanhvít segir að flug frá París haldi áætlun og að jafnframt sé búið að gera ráðstafanir fyrir þá farþega sem bíða hérlendis eftir flugi til Parísar. Hún tók það fram að flugfélagið harmi atburðinn en svona lagað geti alltaf komið upp.