Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Eiturefnaslysið í Grindavík: Fyrirtækið án starfsleyfis
Föstudagur 20. febrúar 2009 kl. 16:08

Eiturefnaslysið í Grindavík: Fyrirtækið án starfsleyfis

Starfsemi fyrirtækis í Grindavík þar sem eiturefnaslys kom upp í vikunni er ólögleg. Fyrirtækið hefur ekki starfsleyfi og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafði ekki hugmynd um tilvist fyrirtækisins. Þetta staðfesti Magnús H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir.

Nú er unnið að því að farga efnunum sem voru í gámnum þar sem efnahvörfin urðu í vikunni.

Eitraðar gufur lagði þá frá gámnum yfir nálægt svæði þar sem fjölmörg fyrirtæki eru með starfsemi. Hluta efnanna er hægt að farga hjá Kölku í Helguvík en önnur þurfa að fara til Efnamóttökunnar til eyðingar.

Samkvæmt upplýsinum frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja var fyrirtækið í Grindavík að framleiða íblöndunarefni til matvælavinnslu en samkvæmt fréttum Sjónvarpsins í vikunni voru það rækjuíblöndunarefni sem efnahvörfin urðu í.

Slökkvilið Grindavíkur fékk útkall um hádegi og unnið var fram á kvöld með aðstoð eiturefnasveitar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að komast að efnunum sem voru í gámnum og að slá á eitraðar gufur frá þeim.

Um tvö tonn af efninu voru í gámnum og höfðu verið þar í 2-3 ár að sögn Ásmundar Jónssonar slökkviliðsstjóra í Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ásmundur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík. Viðtal við Ásmund er í Sjónvarpi Víkurfrétta hér á vf.is

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson