Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 7. mars 2002 kl. 09:35

Eitt þúsundasti fundur bæjarráðs Grindavíkur

Bæjarráð Grindavíkur kom saman til fundar í gærmorgun eins og venja ber til á miðvikudagsmorgnum. Á fundum ráðsins er að öllu jöfnu farið yfir ýmis erindi sem berast og stefna mótuð um afgreiðslu þeirra. Að þessu sinni voru 17 mál á verkefnaskrá ráðsins.Fundurinn í gær var sá 1000. í röðinni. Á þessum tímamótum samþykkti bæjarráð samhljóða tillögu til bæjarstjórnar að Stefnuyfirlýsingu Bæjarstjórnar Grindavíkur: "Bæjarstjórn Grindavíkur stefnir að því að Grindavík verði fjölskylduvænn bær, sem byggi á sjávarútvegi, þjónustu við ferðamenn og möguleikum sem jarðhtinn skapar. Markmiðið er að Grindavík verði eftirsóttur bær til búsetu, bæði hvað snertir atvinnumöguleika menntun og þjónustu."
Fyrir fundinum lá tillaga bæjarstjóra að Starfsmannastefnu og Fjölskyldustefnu Grindavíkurbæjar. Félagsmálaráð, skólanefnd og íþrótta- og æskulýðsnefnd, trúnaðarmenn bæjarins og fleiri hafa fjallað um efni þeirra. Bæjarráð samþykkti hvoru tveggja og vísaði Starfsmannastefnu og Fjölskyldustefnu til staðfestingar bæjarstjórnar.
Meðal annarra mála sem tekin voru fyrir á fundinum má nefna beiðni um viðbótarstyrk til gerðar heimildarmyndar um Guðberg Bergsson. Samþykkt var að heildarstyrkur til myndarinnar verði 1.000.000.- króna, sem þýðir viðbót að fjárhæð kr. 300.000.-
Þá samþykkti bæjarráð samning á milli Sóknarnefndar og bæjarins um stækkun kirkjugarðsins á Stað, en hann kveður á um framlag bæjarins til stækkunarinnar að fjárhæð kr. 7.300.000.-
Þess má geta að bæjarráðsmenn fengu aldrei þessu vant tertusneið með kaffinu auk þess sem fundarmenn voru festir á filmu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024