Eitt stærsta sprotaverkefni á Íslandi er á Suðurnesjum
Vegna fréttar í Víkurfréttum um efnahagslegt svartnætti á Suðurnesjum og skort á sprotaverkefnum vill Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) benda á eftirfarandi verkefni sem eru í gangi á Ásbrú, samfélagi frumkvöðla fræða og atvinnulífs:
Keilir – miðstöð Vísinda fræða og atvinnulífs
Keilir er þriggja ára sprotafyrirtæki sem hefur yfir 600 nemendur, er með mikinn fjölda háskólamenntaðra starfsmanna í fastri vinnu jafnt sem aukavinnu. Keilir hefur til að mynda endurskilgreint flugkennslu á Íslandi með glænýjum flugflota og er að flytja til landsins nemendur og skapa þannig gjaldeyristekjur. Auk þess á sér stað mikil nýsköpun í mennta- og rannsóknauppbyggingu á öðrum þeim meginsviðum sem Keilir leggur áherslu á, Háskólabrú, orkutækni og heilsu.
Eldey - frumkvöðlasetur
Í frumkvöðlasetrinu Eldey eru í dag sex misstór sprotaverkefni í vinnslu hjá frumkvöðlum undir leiðsögn sérfræðinga frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Keili. Stærst þeirra er sprotafyrirtækið HBT sem hefur náð gríðarlegum árangri í að selja vöru sína El-Correct víða um heim.
Eldvörp – Fyrirtækjahótel
Í fyrirtækjahótelinu Eldvörpum eru sjö ung fyrirtæki búin að koma sér fyrir á undanförnum mánuðum. Starfsfólk nær allra fyrirtækjanna er háskólamenntað og vinnur að spennandi verkefnum á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar.
Gagnaver Verne Global
Einungis er beðið eftir lokasamþykki frá iðnaðarnefnd Alþingis áður en hægt verður að hefja framkvæmdir við gagnaver Verne Global. Bein störf í gagnaverinu verða 100 og gert er ráð fyrir að um 100 manns muni vinna við uppbyggingu gagnaversins næstu sjö árin. Samkvæmt skýrslu KPMG þá getur óbein heildaratvinnusköpun numið allt að 330 stöðugildum.
Sjúkrahúsið Lava Clinic
Uppbygging á sjúkrahúsi fyrir heilsuferðamenn hefst bráðlega á Ásbrú. Þar er um að ræða samstarf íslenskra aðila og skandinavískra sem mun fjölga störfum á Suðurnesjum í heilbrigðisþjónustu. Áætlanir gera ráð fyrir að heildaratvinnusköpun verkefnisins verði um 300 stöðugildi.
Kvikmyndaver Atlantic Studios
Á Ásbrú er í dag stærsta kvikmyndaver landsins. Þetta býður erlendum jafnt sem innlendum kvikmyndagerðarmönnum upp á áður óþekkta möguleika við framleiðslu á kvikmyndum á Íslandi. Í dag er hægt að fá heil verkefni hingað til lands þar sem áður voru aðeins útitökur á Íslandi en innitökur í öðrum löndum. Verkefni eins og Flags of our father velta hundruðum milljóna og kaupa þjónustu af fjölda fyrirtækja, stórra og smárra.
Frekari sprotafyrirtæki
Mörg sprotafyrirtæki hafa til viðbótar flutt á Ásbrú og hafið hér rekstur. Má þar nefna:
Detox Jónínu Ben sem hefur tekið á móti þúsundum gesta á undanförnu ári.
Gagnavarslan sem býður upp á nýjar heildstæðar lausnir í gagnamálum fyrirtækja.
Hringbraut sem er nýtt fyrirtæki í hágæða endurvinnslu á bílahlutum.
Bryn Ballett sem býður upp á ballettkennslu og hefur yfir 300 nemendur.
Þessi upptalning er ekki tæmandi en ætti að duga til þess að sýna fólki að allt tal um að „engin sprotaverkefni séu til staðar á Suðurnesjum“ stenst enga skoðun. Þvert á móti er nær hvergi á landinu meiri gróska og fleiri verkefni í deiglunni. Fá svæði á Íslandi eiga meiri möguleika til uppbyggingar en Suðurnes. Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika undanfarið er engin ástæða til svartsýni og því alls ekkert svartnætti framundan. Þá hefur samfélagið á Suðurnesjum sýnt mikinn dugnað og elju við að snúa neikvæðum aðstæðum upp í mikil tækifæri.
Þróunarfélagið áréttar að uppbygging á Ásbrú er samstarfsverkefni fjölda aðila og er í gangi stöðug leit eftir fleiri tækifærum og nýjum samstarfsaðilum til framtíðaruppbyggingar.