Eitt eldsneytisskip á mánuði fyrir Keflavíkurflugvöll
Yfir sumarmánuðina eru skipakomur eldsneytisflutningaskipa til Helguvíkurhafnar tíðari en aðra mánuði ársins. Í síðustu viku var skipið Al Adailiah frá Kúveit með fullfermi af flugvélaeldsneyti í Helguvík. Skipið er 183 metrar að lengd, rúmir 32 að breidd og ristir átta metra. Það getur flutt ríflega 48.500 tonn. Skipið hélt svo frá Helguvík til Algeciras á Spáni.
Halldór Karl Hermannsson, sviðsstjóri atvinnu- og hafnarmála hjá Reykjanesbæ, sagði í samtali við Víkurfréttir að næsta skip sé væntanlegt til hafnar í Helguvík 3. júlí næstkomandi. Eldsneytinu er dælt á eldsneytisbirgðatanka í Helguvík og miðlað þaðan áfram upp á Keflavíkurflugvöll eftir þörfum hverju sinni. Birgðageymslurnar í Helguvík eru skilgreindar sem tollvörugeymsla og annast Olíudreifing tankana á svæðinu. Eldsneyti sem skipað er upp í Helguvík er því í raun ekki tollafgreitt fyrr en því er dælt frá tönkunum í Helguvík og upp á Keflavíkurflugvöll. Sá möguleiki er fyrir hendi í Helguvík að eldsneyti sé flutt aftur út þaðan til annarra landa.