Eiríkur Guðnason látinn
Eiríkur Guðnason, fyrrverandi seðlabankastjóri, lést á Landspítalanum í gær, 66 ára að aldri, af völdum krabbameins. Eiríkur fæddist í Keflavík 1945 og voru foreldrar hans Guðni Magnússon, f. 1904, d. 1996, og Hansína Kristjánsdóttir, f. 1911, d. 1997.
Eftirlifandi eiginkona Eiríks er Þorgerður Lára Guðfinnsdóttir frá Stokkseyri, f. 1946, dóttir hjónanna Guðfinns Guðna Ottóssonar, f. 1920, d. 2002, og Guðrúnar Ingibjargar Kristmannsdóttur, f. 1926.
Börn Eiríks og Þorgerðar eru: Guðfinnur, f. 1964, Guðni Magnús, f. 1970, Hanna Rún, f. 1971, og Oddný Lára, f. 1979.
Eiríkur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1965 og prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1970. Hann hóf störf við hagfræðideild Seðlabankans 1969, varð forstöðumaður peningamáladeildar 1977 og aðalhagfræðingur bankans 1984. Árið 1987 varð Eiríkur aðstoðarseðlabankastjóri en 1994 tók hann við starfi seðlabankastjóra sem hann gegndi til ársins 2009. Árið 1974 var Eiríkur í hálft ár hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington.
Eiríkur sat í stjórn Verðbréfaþings frá stofnun þess 1985 til ársins 2009, lengst af sem formaður. Hann sat í stjórn Reiknistofu bankanna um tíma og í stjórn Þjóðhátíðarsjóðs frá 2006 til 2009. Þá ritaði hann greinar um efnahagsmál í blöð og tímarit, einkum Fjármálatíðindi.
Þau hjónin Eiríkur og Þorgerður hafa tekið virkan þátt í starfi Árnesingakórsins í Reykjavík um langt árabil en Eiríkur hafði unun af tónlist og lék m.a. á gítar. Einnig átti hann létt með að semja gamanvísur sem hann flutti við ýmis tækifæri meðal fjölskyldu og vina.