Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Einstök mamma“ á rafbók í dag
Fimmtudagur 11. febrúar 2016 kl. 12:36

„Einstök mamma“ á rafbók í dag

Einstök rafbók verður gefin út í dag, fimmtudag 11. febrúar, á degi íslenska táknmálsins. Bókin sem ber heitið „Einstök mamma“ er myndskreytt af Margréti Laxness en auk skemmtilegs texta og grípandi mynda er bókin einstök að því leyti að hún er jafnframt hljóðbók í upplestri Védísar Hervarar Árnadóttur (ýtir á hnapp á hverri blaðsíðu) og flutt á táknmáli af Kolbrúnu Völkudóttur táknmálstúlki sem segir söguna í lifandi mynd sem opnast á hverri blaðsíðu.

Þannig er útgáfan einstök hér á landi.

Höfundur bókarinnar er Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur. Bókin var gefin út í hefðbundinni bókaútgáfu af Sölku bókaforlagi fyrir nokkrum árum og hlaut barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur árið 2008.

Bókin er byggð á stuttum skemmtilegum sögum sem segja frá upplifun og tilfinningum ungrar stúlku sem elst upp hjá heyrnarlausri móður á 7. áratugnum. Þá er bókin lýsandi fyrir viðbrögð samfélagsins við heyrnarleysi. Bókin er vel til þess fallin að vekja umræðu um gildi fjölbreytileikans, því dregnar eru upp hliðstæður um börn sem eiga foreldra af erlendum uppruna.

Tilefni tímasetningar rafrænu útgáfunnar er dagur íslenska táknmálsins. Rafbókin er unnin í samstarfi við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskerta. Hervör Guðjónsdóttir, „einstök mamma“ og einn af stofnendum Félags heyrnarlausra, fagnaði nýlega 85 ára afmælisdegi sínum og mun hún opna bókina formlega.

Athöfnin fer fram á Barnamenningarhátíð Félags heyrnarlausra í Tjarnarbíói sem hefst kl. 16.00 þar sem allir eru velkomnir. Bókin „Einstök mamma“ er seld á iBooks/AppStore, gegn vægu verði. Bókin er samtímis gefin út á íslensku, ensku og  þýsku. Arthur Björgvin Bollason þýddi þýsku útgáfuna en um ensku þýðinguna sáu þær Aldís Kristín Firman og Lowana Veal.

Einstök mamma

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024