Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Einstök krabbaveisla vekur lukku
Sunnudagur 18. ágúst 2013 kl. 07:53

Einstök krabbaveisla vekur lukku

Veitingahúsið Vitinn borar fyrir sjó til þess að geyma hjá sér grjótkrabba

Veitingahúsið Vitinn í Sandgerði hefur laðað að sér fjölmarga gesti í sumar og þá aðallega vegna krabbaveislunnar sem boðið er upp á á kvöldin. Vitinn býður upp á grjótkrabba sem geymdur er í húsnæði Þekkingarseturs Suðurnesja, sem er staðsett í næsta húsi við veitingastaðinn. Þar er krabbanum haldið lifandi þangað til hann er eldaður og hefur hann slegið í gegn hjá matargestum sem einnig eru ánægðir með humar, skelfisk og aðrar sjávarafurðir sem í boði er. Brynhildur Kristjánsdóttir, annar eigandi Vitans segir áform um að grafa eigin borholu á lóðinni fyrir sjó til þess að þau geti sjálf hýst krabbann.

„Í rauninni hefur verið klikkað að gera og margföld aukning hjá okkur frá því í fyrra á sama tímabili. Íslendingar hafa verið duglegri að koma en áður þar sem við finnum að Reykjanesið er farið að draga að sér íslenska ferðalanga,“ segir Brynhildur. Erlendir ferðamenn eru samt sem áður stærsti hluti gesta og þá er mikið um hópa sem koma á vegum ferðaskrifstofu. „Vinsælt er hjá ferðamönnunum að eiga síðustu kvöldmáltíðina á Íslandi hjá okkur, margir þeirra eiga miðnæturflug heim og því hentar þetta vel.“
Á Vitanum er einnig boðið upp á hádegishlaðborð þar sem íslenskur heimilismatur er í boði. Nokkrir réttir eru í borðinu ásamt súpu og salatbar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Staðurinn er opinn yfir allan daginn á sumrin en þá er hægt að kíkja við í kaffi og heimagerðar kökur. Vitinn hefur ekki verið opinn á kvöldin að vetri til en nú stendur til að breyta því vegna velgengni í sumar. „Við stefnum á að hafa opið á kvöldin í vetur, við sjáum hvernig það gengur en ég efast um að við náum að hafa opið í janúar. Vonandi verður það eini mánuðurinn sem við þurfum að loka á kvöldin,“ segir Brynhildur að lokum.