Einstaklingum á fjárhagsaðstoð fækkar
-Aukin krafa gerð um virkni og góðar aðstæður á vinnumarkaði
Einstaklingum sem þiggja fjárhagsaðstoð í Reykjanesbæ hefur fækkað að undanförnu sem bæði má rekja til aukinnar atvinnuþátttöku og betri stöðu á vinnumarkaði en jafnframt voru gerðar breytingar á reglum og vinnulagi þar sem gerð er aukin krafa um virkni umsækjenda.
Að sögn Heru Óskar Einarsdótttur framkvæmdastjóra Velferðarsviðs Reykjanesbæjar var markmiðið með breyttu verklagi að bæta þjónustu við umsækjendur um fjárhagsaðstoð með aukinni ráðgjöf og stuðningi.
„Áhersla var lögð á betri greiningu í upphafi máls á þörfum og réttindum umsækjanda, styttri vinnslutíma umsókna, aukna eftirfylgni mála og aukna ábyrgð og þátttöku umsækjanda í úrlausn sinna mála með betri upplýsingagjöf og félagslegri ráðgjöf. Þá er lögð áhersla á að efla virkni og færni þeirra sem þiggja þjónustuna til sjálfshálpar hvort sem það er með atvinnuþátttöku eða framfærslu í gegnum það bótakerfi sem við á.“
Þróun fjárhagsaðstoðar sveitarfélagsins hafði verið með þeim hætti frá efnahagshruninu 2008 að sífellt fleiri íbúar þurftu að reiða sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins til framfærslu og var að sögn Heru Óskar aukningin orðin 50% á 5 ára tímabili.
„Vaxandi málafjöldi, aukið álag á starfsmenn og minni tími til að veita nauðsynlega félagslega ráðgjöf og stuðning samhliða fjárhagsaðstoð, leiddi til þess að á árinu 2014 var endurskoðað skipulag og vinnulag í málum er varða fjárhagsaðstoð og félaglega ráðgjöf og komið á fót teymi innan ráðgjafar- og stoðdeildar velferðarsviðs sem vinnur sérstaklega með umsækjendum,” sagði Hera Ósk en heimilt er að skerða aðstoð ef umsækjandi sinnir ekki skilgreindri ábyrgð og skyldum.
Öflugur vinnumarkaður sem skapar vinnufærum tækifæri til starfsþjálfunar, reynsluráðningar og atvinnuþátttöku er að sögn Heru mikilvægur. „Fjölgun starfa á okkar svæði hefur haft mjög jákvæð áhrif fyrir vinnufæra einstaklinga á fjárhagsaðstoð. Með fjölgun atvinnutækifæra höfum við séð nú þegar fækkun aðstoðarþega í þeim hópi og vonum að framhald verði þar á. Þá eru nýtt fleiri úrræði og má þar nefna Fjölsmiðjuna og Stíg en því vil viðbótar var komið á nýju virkniúrræði í samstarfi við MSS þar sem áhersla er lögð á sjálfsstyrkingu, heilsusamlegan lífsstíl, áhugahvöt, virkni, fjármálalæsi, samfélagsvitund og þátttöku.
„Við leggjum sérstaka áherslu á að úrræði veiti sem tíðasta eða daglega virkni fyrir þátttakendur en einstaklingar á fjárhagsaðstoð sem metnir eru óvinnufærir eða með skerta vinnufærni fá í kjölfar mats, einstaklingsbundna aðstoð til virkni, vinnu og sjálfsbjargar í stað hlutlauss fjárstyrks. Í þeim tilgangi að geta veitt hlutaðeigandi viðeigandi úrræði hefur samstarf við Virk starfsendurhæfingu verið eflt og fyrir liggur að tekið verður upp aukið samstarf við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að mæta enn betur þörfum þessa hóps,” sagði Hera Ósk en hún telur mikilvægt að fyrirbyggja neikvæð áhrif lágra tekna til lengri tíma og að félagsþjónustan geti brugðist hratt við og mætt hverjum umsækjenda með stuðningi og virknilausnum til framtíðar.
„Við munum halda áfram að vinna út frá því markmiði að allir íbúar sveitarfélagsins geti séð sér og sínunm farboða án fjárhagsaðstoðar sveitarfélagsins en að sú aðstoð sé til staðar þegar þörf krefur.”