Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Eins og Villta vestrið?
Fimmtudagur 21. febrúar 2008 kl. 17:46

Eins og Villta vestrið?

Fulltrúi A-lista í Umhverfis og skipulagsráði Reykjanesbæjar sagði á síðasta fundi að fyrirhuguð byggð á Narfakotstúni í Innri Njarðvík hefði alla burði til að verða eins og landnemaþorp í Villta vestrinu.

Á fundinum var farið yfir nokkrar athugasemdir sem bárust vegna auglýsingar um nýtt deiliskipulag á Narfakotstúni. Þar er ráðgert að byggja 36 einbýlishús og eitt parhús á 81.000 m2 fleti.
Athugasemdir snerust um aukningu á gegnumakstri, þéttingu byggðar, nálægð við núverandi byggð, græn svæði og flóðahættu og frárennsli.

Samþykkt var breyting á legu vegar, fjær einu húsi, en annars var deiliskipulagstillögunni vísað til afgreiðslu Skipulagsstofnunar sem mun taka endanlega ákvörðun um hana.

Tillagan var því samþykkt með atkvæðum meirihluta en Jón Ben Einarsson, fulltrúi A-lista, lagði hins vegar fram bókun þar sem hann harmar þessa ákvörðun sem hann segir tilraun til að „mjólka þetta viðkvæma svæði meira en góðu hófi gegnir“.

Í niðurlagi segir hann: „Í heild tel ég þetta deiliskipulag ekki nægjanlega gott, byggðin teygir sig yfir of stórt svæði, vegtengingar eru ekki sannfærandi og heildarmyndin virkar sundurlaus þar sem byggingarreitir eru út og suður, allt of stórir og óbundnir á alla vegu. Þarna er bærinn að fórna náttúruperlu fyrir byggð sem hefur alla burði til að verða eins og landnemaþorp í Villta vestrinu.“

Loftmynd/Oddgeir Karlsson - Njarfakotstjörn
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024