„Eins og að lesa DV“
Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingar í Reykjanesbæ, segir að með bókun bæjarfulltrúa flokksins á bæjarstjórnarfundi í gær, sé gefið í skyn að spilling sé ríkjandi í stjórnsýslu bæjarins. Henni sé ætlað að hreinsa andrúmsloftið í samfélaginu.
Í bókuninni er lagt til að bæjarstjórn Reykjanesbæjar skipi nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu bæjarins. Yrði henni m.a. ætlað að kanna aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum, hvort einstakir aðilar hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu og hvort fjársterkir aðilar hafi beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu bæjarins, svo nokkuð sé nefnt.
Á fundinum í gær benti Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á að verið væri að leggja fram bókun þó í henni fælist tillaga. Tillögu þyrfti að leggja fram sérstaklega ætti hún að koma til afgreiðslu sem slík. Bókanir væru hins vegar ekki sérstaklega til afgreiðslu.
„Mér finnst í þeim orðum sem þar eru sett fram að verið sé að gefa til kynna að menn hafi unnið með óeðlilegum hætti; eitthvað misjafnt sé í gangi. Ég vil bara fá að vita hvað það er sem kemur mönnum til að leggja fram slíka bókun. Hvaða verkefni það eru sem kveikja þá hugmynd að setja bókun fram með þessum hætti,“ sagði Böðvar. Hann sagðist renna í grun að textinn væri settur fram sem bókun en ekki tillaga í þeim tilgangi að ekki væri hægt að greiða um hana atkvæði.
Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar, segir í samtali við VF að málið verði tekið upp sem tillaga.
„Ég hef rætt um það í bæjarráði að það væri ólíðandi að starfsmenn og stjórnendur bæjarins sitji undir ámælum um lögbrot og fullyrðingum manna á millum. Sérstaklega á þetta við umræðu um Motopark, veðsetningar og Toppinn.
Í kjölfar Hrunsins velti Samfylkingin í Reykjanesbæ því fyrir sér hvort ekki þyrfti að skoða málin hér upp á nýtt og þessi bókun er tilkomin vegna þess. Við munum örugglega taka þetta upp sem tillögu þannig að hægt verði að ræða um hana á öðrum grundvelli og greiða um hana atkvæði. Sennilega mun ég koma með hana á næsta bæjarstjórnarfund.
Við teljum eðlilegt skoða málin ofan í kjölinn eins og gert hefur verið og er verið að gera víða í stjórnsýslunni og bankakerfinu. Við teljum því nauðsynlegt að gera þetta einnig hér í heimabyggð og hreinsa starfsmenn af þessum grun. Að segja að við séum að saka starfsmenn um spillingu er út í hött. Við viljum einungis hreinsa andrúmsloftið, koma okkur út úr þessari umræðu og einbeita okkur að endurreisn atvinnulífsins “ sagði Friðjón.
„Friðjón Einarsson hefur nefnt það hér að hann hafi tekið þau mál upp að menn séu ósáttir við þær árásir, það er talað um ólíðandi árásir á embættismenn. Þá væntanlega hlýtur það að tilheyra mér og mér þykir vænt um að þá skuli einhver standa upp og tala um að þetta séu ólíðandi árásir og eitthvað verði að gera. En ef aðferðafræðin er sú sem fram kemur í þessari bókun þá afþakka ég það, “ sagði Árni Sigfússon, bæjarstjóri á bæjarstjórnarfundinum í gær.
„Það er eins og maður sé að lesa DV í þessari bókun,“ sagði Árni ennfremur. „Þar er greinilega verið að gefa í skyn efasemdir um heiðarleika manna. Það er verið að gefa í skyn að fyrirtækjasamsteypur hafi haft óeðlilega fyrirgreiðslu. Það er verið að gefa í skyn að fjársterkir aðilar hafi haft áhrif á pólitískar ákvarðanir. Það er verið að gefa í skyn að fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við bæinn og einstaka embættismenn eða bæjarfulltrúa. Og það er verið að gefa í skyn að menn hafi hagnýtt sér persónulega í þágu sín flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt viðskipti við bæinn. Oft hefur maður nú heyrt þetta; að maður hafi heldur betur staðið að svindi og eignast einhverja hluti óheiðarlega en við vildum helst vera laus við svona fullyrðingar hér í okkar samfélagi,“ sagði Árni.