Einn með margar tegundir fíkniefna
- annar stal úr verslun þrjá daga í röð.
Rúmlega tvítugur karlmaður var tekinn með amfetamín í fórum sínum í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. Lögreglan fór eftir það í húsleit á heimili hans, að fenginni heimild frá honum. Þar fundust kannabisefni, e-töflur, amfetamín, óþekkt hvítt efni og slatti af kannabisfræjum.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.
Þá hafði lögreglan um helgina hendur í hári annars manns sem hafði látið greipar sópa í verslun í umdæminu þrjá daga í röð fyrr í mánuðinum. Hann var látinn greiða fyrir varninginn sem hann hafði tekið ófrjálsri hendi og undirrita skaðabótakröfu á hendur sér.