Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Einn einstaklingur deyr á 99 daga fresti á Reykjanesbraut
Sunnudagur 30. nóvember 2003 kl. 18:17

Einn einstaklingur deyr á 99 daga fresti á Reykjanesbraut

Sextíu friðarljós voru tendruð við minnisvarða um látna á Reykjanesbraut í Kúagerði nú síðdegis. Við athöfnina voru forsvarsmenn áhugahóps um örugga Reykjanesbraut, ættingjar fólks sem látist hefur í umferðarslysum á brautinni og áhugafólk um bætta umferðarmenningu. Allir helstu fjölmiðlar landsins voru við athöfnina. Athygli vakti að enginn þingmaður né ráðherra kjördæmisins var við athöfnina, sem þó hafði fengið góða kynningu í fjölmiðlum. Engum var boðið sérstaklega til athafnarinnar, að sögn Steinþórs Jónssonar, talsmanns áhugahóps um öruggari Reykjanesbraut. Það kom fram í stuttu ávarpi Steinþórs á staðnum að frá 30. nóvember árið 2000 hafa ellefu einstaklingar látist í umferðarslysum á Reykjanesbraut. Þetta gerir 1 einstakling á 99 daga fresti. Þá er það ljóst á árið í ár er það ljótasta í sögu brautarinnar en sex einstaklingar hafa látist í slysum á brautinni.

Meðfylgjandi er ávarpið sem Steinþór flutti í dag:

Reykjanesbraut - þjóðbraut allra landsmanna.
 
Þessi stund hér í Kúagerði 30. nóvember markar þriggja ára tímabil frá hörmulegu slysi á Reykjanesbraut sem varð upphaf baráttu áhugahóps um örugga Reykjanesbraut. Með því tók áhugahópurinn upp verkefni sem barist hafi verið fyrir af ýmsum þingmönnum og góðum einstaklingum í meira en áratug.
 
Hér viljum við með friðarkertum  sýna á táknrænan hátt stöðu Reykjanesbrautarinnar í dag.
* 49 logandi friðarkerti: Frá árinu 1964 til 30. nóvember 2000 höfðu 49 einstaklingar látist á Reykjanesbraut 
*  11 logandi friðarkerti: Á síðustu 3 árum, eða rúmum þúsund dögum síðar, hafa 11 einstaklingar látist
* Ótendruð friðarkerti: Það kostar um einn milljarð króna að koma í veg fyrir tendrun nýrra kerta í þessu samhengi.
 
Aðrar staðreyndir og punktar.
 
· Reykjanesbraut var opnuð fyrir umferð 1964. Síðan þá hafa 60 látist.
· Á þessu ári hafa 6 einstaklingar látist í jafnmörgum slysum og er árið 2003 það ljótasta í sögu brautarinnar. Er hér um að ræða tæplega þriðjung allra dauðaslysa á Íslandi í ár og á brautin sér enga hliðstæðu í vegakerfinu. Auk þess hafa fjölmargir slasast alvarlega og munu aldrei bíða þess bætur.
· 11 einstaklingar hafa látist á síðustu 3 árum þ.e. einn einstaklingur látist að meðaltali með um það bil 99 daga millibili á síðustu þremur árum.
· Öll dauðaslys á þessu ári, utan eitt, má rekja til einfaldrar Reykjanesbrautar þar sem bifreiðar mætast úr gagnstæðri átt.
· Áhugahópurinn var stofnaður í lok árs 2000 og hélt sinn fyrsta borgarafund 11. janúar 2001. Fleiri uppákomur fylgdu í kjölfarið. Fyrsta skóflustunga af Reykjanesbraut var tekið 11. janúar 2003.
· Áhugahópurinn hefur aldrei borið framkvæmdir við Reykjanesbraut við aðrar framkvæmdir á Íslandi en styður allar framkvæmdir sem stuðla af bættri umferðarmenningu og fækkun slysa.
· Áhugahópurinn vill koma á framfæri að gott samstarf við Samgönguráðherra og þingmenn svæðisins hefur tryggt góðan gang í fyrsta áfanga en telur seinni áfanga verksins ekki tryggðan nema með frekari stuðningi þeirra svo og annarra þingmanna.
· Fullyrðingar áhugahópsins um hagstæð verð og verkhraða hafa staðist og gott betur. Núverandi tilboð voru um 60% af kostnaðaráætlun og eru verktakar um 6 mánuðum á undan áætlun.
· Seinni hluti Reykjanesbrautar hefur verið hannaður og er tilbúin til útboðs.
· Verktakar gætu klárað allt verkið á rúmu ári og fjármagnað sé þess óskað.
· Ef skýr svör um fyrstu skref í öðrum áfanga koma ekki fram fyrir lok ársins mun hópurinn standa fyrir borgarafundi um málið 11. janúar 2004.
 
Áhugahópurinn mun ganga hart fram um að þau loforð sem gefin voru á landsfrægum borgarafundi í Stapa 11.janúar 2001 verði efnd. Við köllum hér með eftir stuðningi allra landsmanna, þingmanna og fjölmiðlamanna til að fylgja þessari mikilvægu baráttu til enda.
Mannslíf okkar eru í veði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024