Einkaflugnám nú í boði í fjarnámi
Flugakademía Íslands bætir einkaflugnámi í fjarnámi við námsframboð sitt í haust. Fjarnámið verður kennt samhliða staðnámi, en kennsla hefst 30. ágúst. Umsóknarfrestur er til og með 15. ágúst næstkomandi.
Einkaflugnám í fjarnámi er kennt samhliða staðnámi. Námið tekur tíu vikur samtals með prófum og stendur yfir frá 30. ágúst – 5. nóvember 2021.
Námið byggist upp á CBT (Computer Based Training) þjálfun þar sem nemendur horfa á fyrirlestra og vinna svo verkefni og taka æfingapróf. Í fjarnámi er 10% mætingarskylda og verða tvær staðlotur á námstímanum. Nemendur hafa greiðan aðgang að kennara á meðan námskeiði stendur. Lokapróf verða haldin í skólanum um helgar en eins og í staðnámi þurfa nemendur að standast skólapróf til að fá próftökurétt hjá Samgöngustofu. Þeir staðnemar sem þess óska geta fært sig yfir í fjarnám óski þeir þess.
Einkaflugnám er ætlað þeim sem vilja verða einkaflugmenn og vilja stunda sjónflug á litlum einshreyfils flugvélum, sér og farþegum sínum til ánægju.
Námið er unnið í samræmi við samevrópskar reglur um flugnám, sem innleiddar eru á Íslandi frá Öryggisstofnun Evrópu (EASA) í gegnum EES-samninginn. Að loknu einkaflugnámi, öðlast þú samevrópsk einkaflugmannsréttindi (Part-FCL flugskírteini), sem veitir þér réttindi til að fljúga á einshreyfils flugvél í sjónflugi með farþega án endurgjalds víða um heim. Einkaflugmannsnám er bæði skemmtilegt og krefjandi nám sem skiptist í bóklegt nám og verklegt nám.
Frekari upplýsingar og skráning á www.flugakademia.is