Einingaverksmiðjan Helguvík: Steypa tvö hús á viku
Undirbúningur að starfsemi nýrrar húseiningaverksmiðju stendur nú yfir í Reykjanesbæ. Verksmiðjan mun hefja starfsemi í mars en nú er unnið að því að koma upp búnaði til bráðabirgða í húsnæði Eldafls í Njarðvík. Tækjabúnaður verksmiðjunnar er keyptur frá Berlín í Þýskalandi þar sem verksmiðjan hefur verið starfrækt í fjögur ár.
Einingaverksmiðjan er í eigu sömu aðila og reka steypustöðina Steypuna í Helguvík. Fyrirtækið heitir Einingaverksmiðjan Helguvík og hefur fyrirtækinu verið úthlutað lóð að Berghólabraut 17 þar sem byggt verður 600 fermetra hús fyrir verksmiðjuna. Þangað verður starfsemin flutt innan árs en þangað til verða einingar steyptar í Njarðvík.
Geir Sædal hjá Einingaverksmiðjunni Helguvík sagði að þegar hafi verið gerðir samningar um sölu á einingum í 24 íbúðir fyrir Meistarahús og þá væru unnið að drögum að allt að 80 íbúðum til viðbótar. Geir sagði að verksmiðjan ætti að ráða við það að steypa tvö hús á viku. Hagkvæmara væri að steypa hús með þessum hætti, þar sem það væri bæði fljótlegra og þá væri verið að steypa við bestu hugsanlegar aðstæður, innanhúss og því hefði veðurfar ekki áhrif á steypuna á viðkvæmum tíma.
Einingarnar verða sléttpússaðar til að byrja með en þegar verksmiðjunni hefur verið komið upp í Helguvík með allri aðstöðu verður hægt að velja um mismunandi áferð á útveggi eininganna.
Myndin: Búnaði einingaverksmiðjunnar komið upp í húsnæði Eldafls í Njaðvík þar sem verksmiðjan verður rekin til bráðabirgða í nokkra mánuði, þar til húsnæði verður tilbúið fyrir starfsemina í Helguvík. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson