Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Eini raunhæfi kosturinn fyrir Suðurnesjamenn“
Fimmtudagur 8. mars 2007 kl. 12:44

„Eini raunhæfi kosturinn fyrir Suðurnesjamenn“

Grétar Mar Jónsson, skipstjóri og varaþingmaður úr Sandgerði, var í vikunni útnefndur oddviti Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi og mun hann fara fyrir listanum í komandi Alþingiskosningum.
Grétar segir í samtali við Víkurfréttir að hann sé í raun eini raunhæfi kosturinn fyrir Suðurnesjamenn til að koma manni af svæðinu inn á þing í áhrifastöðu. Í öðru sæti á listanum er Óskar Þór Karlsson úr Reykjanesbæ, en alls eru 8 Suðurnesjamenn á lista.

„Þetta leggst vel í mig,“ sagði Grétar í samtali við Víkurfréttir. Frjálslyndir eru nú með einn þingmann í kjördæminu en fylgi þeirra í skoðanakönnunum hefur verið nokkuð á reiki undanfarnar vikur.
„Ég er mjög bjartsýnn fyrir átökin og hlakka mikið til. Við teljum mjög raunhæft að verja okkar þingsæti og ef vel tekst til erum við jafnvel að gera okkur vonir um að ná inn öðrum manni.“


Eru einhver sérstök Suðurnesjamál sem þið munið berjast fyrir, hljótið þið brautargengi í kosningum?
„Auðvitað munum við berjast fyrir Suðurstrandarveginum, samgöngum og atvinnumálum á Suðurnesjum. Efst á lista hjá okkur eru að sjálfsögðu breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, til hagsbótar fyrir Suðurnesjamenn. Síðan erum við með málefni öryrkja og aldraðra sem við leggjum mikla áherslu á, og svo eiturlyfjavandamálið sem er orðið mjög alvarlegt hér á Suðurnesjum sem og annars staðar á landinu.“


Þú þekkir það sem þú ert að fara út í vegna tíma þíns sem varaþingmaður á kjörtímabilinu, en er ekki erfitt að ná sínum baráttumálum í gegn þótt komið sé inn á þing?
„Auðvitað skipta úrslit kosninga máli, en með okkar möguleikum á að komast inn í ríkisstjórn höfum við tækifæri til að láta gott af okkur leiða og gera þær breytingar sem okkur finnst að þurfi að gera.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024