Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Einföld lausn til við niðurskurðarhnífnum
Fimmtudagur 13. mars 2008 kl. 23:50

Einföld lausn til við niðurskurðarhnífnum

-sagði Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélagsins.

Um 150 lögregluþjónar, tollverðir og öryggisgæslumenn og konur mættu á fund í Keflavík í kvöld til að ræða niðurskurð í embætti lögreglunnar á Suðurnesjum. „Okkar fólk hefur að sjálfsögðu áhyggjur en við erum með einfalda lausn á málinu sem felst aðallega í því að vísitöluhækka öryggisgjald og sértekjur okkar,“ sagði Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands og deildarstjóri hjá lögreglu- og tollstjóranum á Suðurnesjum.

Sveinn Ingiberg Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna sagði á fundinum ekki trúa öðru en að málið yrði leyst. Jón Halldór Sigurðsson, formaður lögreglufélagsins á Suðurnesjum sagði lögreglumenn vera að kikna undan mikilli yfirvinnu og slæmum húsakosti lögreglunnar. Hann sagði þolinmæði löreglumanna á þrotum og hætta væri á uppsögnum ef þetta héldi svona áfram.

„Það þarf að vísitöluhækka öryggisgjaldið og sértekjur okkar og bæta við tekjustofn vegna brottflutnings varnarliðsins. Við erum ekki að fara fram á annað en að fjöldi starfsmanna verði sá sami og árið 2006 þó svo að starfsemin hafi aukist mjög mikið vegna mikillar grósku og íbúafjölgunar á Suðurnesjum, mikillar aukningar í fluginu og síðan brottflutnings varnarliðsins. Það er alveg ljóst að ef þær hugmyndir um niðurskurð sem fram eru komnar verða að veruleika verða afleiðingarnar skelfilegar á svo mörgum sviðum,“ sagði Guðbjörn.

Í ræðu sinni á fundinum rakti Guðbjörn þróun mála á undanförnum árum sem m.a. sýndi að flugfarþegum hefur fjölgað verulega, tollafgreiðslur hafa tvöfaldast og íbúum á Reykjanesi einnig fjölgað mest á öllu landinu. Þá hafi ekki verið tekið tillit til aukningar í landamæradeild og flugfrakt.

Guðbjörn sagði að afleiðingarnar ef í alvarlegan niðurskurð yrði farið gætu leitt til aukins smygls fíkniefna og vopna. Þá nefndi hann aukið smygl í gegnum svokallaða græna hlið í Leifsstöð þar sem almennir flugfarþegar fara í gegn við heimkomu. Þar hefði embættið innheimt 100 milljónir króna á síðasta ári. Þá nefndi hann einnig að aðrar sértekjur yrðu í hættu eins og minna eftirlit með innflutningi og þjónustu við tollmiðlara. Um stórar fjárhæðir væri að ræða sem gætu dottið niður við niðurskurð á starfsemi og næmu hugsanlega allar um 200 millj. króna eða þeirri tölu sem talað er um að skera niður í starfseminni.

„Okkar nýja ráðuneyti hlýtur að sýna þessu skilning og ég treysti Birni Bjarnsyni, dómsmálaráðherra fullkomlega til þess,“ sagði Guðbjörn í viðtali við vf.is eftir fundinn í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024