Einelti er ofbeldi sem aldrei sé liðið í skólastarfinu
Fulltrúar minnihlutans í skólanefnd Gerðaskóla hafa aðra sýn á þau svör sem senda á Mennta- og menningarmálaráðuneytinu um hvernig unnið hafi verið að þáttum skýrslunar, Mat á skóla-og æskulýðsstarfi í Sveitarfélaginu Garði, sem unnin var 2008. Framhaldsumræða um svar við bréfi til ráðuneytisins var tekin á fundi í skólanefnd nú í vikunni. Þar var lögð fram tillaga að svarbréfi frá L- og N-lista. Tillaga þeirra er hér að neðan ásamt bókun kennara Gerðaskóla. D-listinn, sem fer með meirihlutann í skólanefndinni felldi tillöguna en L- og N-listi greiddu henni atkvæði.
Tillaga að svarbréfi til Mennta- og menningarmálaráuneyrisins frá L og N - lista
Garði 3. október 2011
Mennta- og menningarmálaráðuneyti
b.t. Mats- og greiningarsviðs
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík
Með bréfi dagsettu 6. september 2011 óskar Mennta- og menningarmálaráðuneytið eftir upplýsingum frá bæjarstjóra í samráði við skólanefnd Gerðaskóla, um hvernig unnið hafi verið að þáttum skýrslunar, Mat á skóla-og æskulýðsstarfi í Sveitarfélaginu Garði sem unnin var 2008. Í bréfi ráðuneytisins er vísað í eftirfarandi þætti sem óskað er eftir að afstaða verði tekin til:
• Starfsanda og liðsheild í starfsmannahópnum.
• Verkaskiptingu milli stjórnenda.
• Forfallakennslu.
• Einelti og líðan nemenda.
• Kennsluhætti og skólabrag.
• Samstarf skólans og foreldra.
• Sjálfsmat og skólaþróun.
Skólanefnd vann að gerð skólastefnu Garðs með íbúum bæjarins og starfsmönnum skólanna sem gefin var út vorið 2008. Skólastefnan var samþykkt í skólanefnd 24. janúar 2008 og í bæjarstjórn 6. febrúar sama ár og fylgir með bréfi þessu. Í skólastefnunni koma fram áherslur bæjarins í skólamálum.
Þann 6. nóvember 2008 kynntu matsmennirnir Ingvar Sigurgeirsson, Kristín Jónsdóttir og Ólafur H. Jóhannsson drög að skýrslu um mat á skóla- og æskulýðsstarfi bæjarins fyrir skólanefnd, æskulýðsnefnd, skólastjórum, forstöðumanni félagsmiðstöðvar, bæjarfulltrúum og fulltrúum foreldra.
Á skólanefndarfundi 4. desember 2008 kynnti skólastjóri Gerðaskóla áætlun um viðbrögð við ábendingum og umbótatillögum sem fram koma í skýslunni. Bókað var á skólanefndarfundinum vegna úrbóta í átta liðum áætlun sem var vel skipulögð og tímasett. Kaflarnir báru eftirfarandi yfirskriftir:
• Bæta þarf starfsandann og efla liðsheild.
• Breyta viðhorfi foreldra.
• Bættur skólabragur.
• Einelti.
• Auka fjölbreytni í kennsluháttum.
• Stjórnun.
• Viðhorf nemenda.
• Aðstöðu þarf að bæta.
Skólanefnd hefur fylgst með framgangi umbótaáætlunarinnar. Á fundi skólanefndar 21. janúar 2010 var síðast farið yfir umbætur vegna ábendinga í skýrslu um mat á skólastarfi. Þar mælti skólanefnd með því að teymið sem sá um mat á skólastarfi verði fengið til að leggja foreldrakönnuna aftur fyrir og skólastjóra falið að hafa samband við teymið. Hugmyndin var sú að fá samanburð þannig að meta mætti árangur umbótastarfsins. Því miður gat matsteymið ekki orðið við þessari ósk skólanefndarinnar á vorönn 2010. Ný bæjarstjórn tók við að loknum sveitarstjórnarkosningum vorið 2010 með nýjar áherslur, s.s. með því að ráða starfsmann til að stýra endurskoðun á skólastefnu bæjarins. Ekkert varð úr þeirri endurskoðun.
Starfsandi og liðsheild í starfsmannahópnum:
Skólastjóri kynnti fyrir skólanefnd í kjölfar úttektarinnar áætlun um eflingu liðsheildar og hvernig bæta mætti starfsanda í Gerðaskóla. Góður árangur náðist strax veturinn 2008-2009. Mælingar hafa verið gerðar á starfsandanum og niðurstöður birtar í sjálfsmatsskýrslum. Á fundum skólanefndar hafa sjálfsmatsskýrslur verið kynntar, meðfylgjandi bréfi þessu eru niðurstöður kannana síðustu þriggja ára.
Verkaskipting milli stjórnenda:
Í Starfsmannakönnun sem var gerð 11.-15. apríl 2011 kemur fram að starfsfólk telur verkaskiptingu milli stjórnenda sé skýr.
Forfallakennsla:
Þegar úttekt var gerð á skólastarfinu veturinn 2007-2008 var forfallakennsla í öllum bekkjum skólans ef mögulegt var að manna hana. Vegna kröfu bæjaryfirvalda um niðurskurð varð úr að skerða forfallakennslu í 6. – 10. bekk.
Einelti og líðan nemenda:
Skólanefnd hefur lagt áherslu á að einelti sé ofbeldi sem aldrei sé liðið í skólastarfinu. Eineltisteymi hefur starfað við skólann frá því innleiðing Olweusarstefnunnar var 2002. Ef grunur um einelti vaknar þá ber að tilkynna það til eineltisráðs/teymisins sem vinnur eftir viðbragðsáætlun sem er að finna á heimasíðu skólans.
Kennsluhættir og skólabragur:
Almennt þykir skólabragur góður, a.m.k. fá skólastjórar og kennarar ekki annað að heyra en jákvæðar athugasemdir vegna nemenda hvort heldur er á skólaferðalögum eða fyrirlestrum.
Árið 2010 héldu kennarar til Danmerkur og kynntu sér útikennslu. Í skólanum eru fjölbreyttar kennsluaðferðir, útikennsla, einstaklingsmiðað nám, áhersludagar, þemadagar o.fl.
Samstarf skóla og foreldra:
Skólinn notar Mentor.is sem samskiptatæki milli foreldra og skóla. Foreldrafélag er starfandi í skólanum, sem og bekkjarfulltrúar í hverjum bekk. Foreldrar eru hvattir til að taka virkan þátt í skólastarfinu og eru ávallt velkomin í skólann. Skólanefnd telur samvinnu heimilis og skóla mjög mikilvægan þátt í öllu skólastarfinu.
Sjálfsmat og skólaþróun:
Starfsmannakannanir eru gerðar árlega og niðurstöður þeirra aðgengilegar hjá skólastjóra. Skólaþróun er aldrei tæmandi þáttur í starfi grunnskóla. Skólastjórnendur hafa staðið sig ágætlega eins og kannanir sýna, að framylgja reglugerðum um innra mat grunnskóla eins og lög kveða á um. Skólanefnd leggur áherslu á að farið sé eftir skólastefnu bæjarfélagsins og reglulega metið hvort markmiðum hennar sé náð og umbótaáætlunum hrundið af stað þar sem kannanir sýna að betur megi fara í skólastarfinu.
Tillagan feld með 3 atkvæðum D-listans, fulltrúar N og L-lista greiddu atkvæði með tillögunni.
Bókun frá N og L-lista
L og N listar hafa lagt fram lagfæringar á drögum að bréfi frá D – lista. Því hefur verið hafnað og munu listarnir því senda bréfið til mats- og greingarsviðs mennta- og menningarráðuneytisins.
D-listinn leggur til með vísan í síðustu fundargerð skólanefndar þar sem lögð var fram tillaga að svari til mennta og menningarmálaráðuneytis verði samþykkt sem svar skólanefndar.
Tillagan samþykkt með 3 atkvæðum D-listans, fulltrúar N og L-lista á greiddu á móti tillögunni.
Bókun kennara Gerðaskóla:
Mennta og menningarmálaráðuneytið óskar eftir umsögn frá bæjarstjóra í samráði við skólanefnd. Framlögð umsögn bæjarstjóra og meirihluta skólanefndar er ekki unnin í samráði við alla skólanefnd og er að miklu leyti byggð á huglægu mati og sögusögnum. Fulltrúar kennara telja þessi vinnubrögð einstaklega ómálefnaleg og ófagleg. Svo virðist sem leitast sé við að draga fram sem neikvæðasta mynd af skólastarfinu og orðalag notað sem ýtir undir neikvæða túlkun.
Skv. sjálfsmatsskýrslu Gerðaskóla frá síðasta skólaári komu flestir þættir vel út í könnunum og unnið hefur verið markvisst með þá þætti sem þarfnast úrbóta.
Bókun frá D-lista.
Meirihluti skólanefndar hafnar með öllu að svarið sé byggt á huglægumati og sögusögnum, allt sem fram kemur í svari meirihlutans byggir á framkomnum skýrslum og könnunum. Það skal svo áréttað að svar skólanefndar er ekki runnið undan rifjum bæjarstjóra.
Skólastjóri greindi frá að skólaráð hefði lokið við sýna greinargerð til mennta- og menningarmálaráðuneytis.