Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Einelti drepur
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 2. júlí 2023 kl. 11:33

Einelti drepur

Tólf ára börn fengu peysur með yfirskriftinni „Stopp einelti“

Flott framtak hófst fyrir nokkrum mánuðum hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) en þá tóku nemendur og leiðbeinandi þeirra, Pétur Ragnar Pétursson, sig til og vildu láta gott af sér leiða út í samfélagið. Hópurinn ákvað að vekja athygli á skaðsemi eineltis og hófst söfnun fyrir hettupeysum sem öll tólf ára skólabörn á Suðurnesjum, fengu afhent.

Pétur, sem er menntaður vefhönnuður og starfar sem slíkur í dag auk þess að leiðbeina hjá MSS, fór yfir hvernig verkefnið hefur gengið og hvert það gæti farið í framtíðinni. „Markmiðið með þessu verkefni er að vekja athygli á einelti og skaðsemi þess, einelti er einfaldlega hættulegt. Við ákváðum að safna fyrir flottum hettupeysum fyrir öll tólf ára börn á Suðurnesjum og ástæða þess að tólf ára börn voru valin, þau eru að fara úr barnaskóla upp í gagnfræðaskóla svo okkur fannst það rétti aldurinn. Ég vona að þetta verkefni muni vaxa og dafna í framtíðinni og þá væri ekki vitlaust að fara með aldurinn neðar, átta ára börn til dæmis. Ég og nemendur mínir höfum haldið utan um þetta og ég myndi segja að þetta hafi gengið vel en hugmyndin fæddist í tíma hjá okkur í september. Nemendur mínir eru í starfsendurhæfingu og þau tóku í raun að sér vöruþróunarverkefni. Eftir að hafa spáð í hvað við gætum gert sniðugt kom fljótlega í ljós að við vildum láta gott af okkur leiða og úr varð þetta samfélagsverkefni. Ég hefði viljað sjá fyrirtækin taka betur í söfnun okkar en auðvitað kosta peysurnar og áletrunin en vonandi sjá forsvarsmenn fyrirtækja og bæjarfélaganna, hversu mikilvægt svona mál er. Einelti er mjög alvarlegt og allar forvarnir gegn því eru að hinu góða. Ég á því von á að okkur verði betur tekið að ári þegar við söfnum fyrir peysum. Hvaða aldur verður fyrir valinu er óráðið á þessum tímapunkti en ég vona heitt og innilega að þetta verkefni sé komið til að vera um ókomin ár,“ sagði Pétur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sara Daníelsdóttir er einn nemendanna í hópnum og segir að þetta hafi verið mjög gaman og lærdómsríkt en Pétur var að kenna þeim tjáningu. „Við vorum að ræða verkefnin hans sem vefhönnuður og meðal annars sagði hann okkur frá appi sem hann hannaði sem tók á einelti. Notandinn gat tilkynnt einelti en því miður kláraðist það verkefni ekki og þessi hugmynd fæddist. Ég held að allir í nemendahópnum hafi lent í einelti af einhverju tagi. Ég hef lent í slæmu einelti og veit allt um skaðsemi þess. Þess vegna vaknaði hugmyndin og hér erum við í dag með frábært verkefni í höndunum,“ sagði Sara.

Erlingur Arnarson og Sara Daníelsdóttir.

Erlingur Arnarson er líka nemandi og segir að hópurinn hafi hitt naglann á höfuðið þegar þessi hugmynd var til. „Þegar þetta námskeið var búið tók hópurinn sig til og óskaði eftir við stjórnendur MSS að fá Pétur til að halda áfram að kenna okkur og úr varð þetta verkefni. Það var gott að hafa Pétur til að halda okkur á jörðinni en margar hugmyndir fæddust. Ég tel að okkur hafi tekist að hitta naglann á höfuðið með þessari hugmynd. Hópurinn var mjög samrýndur og vann vel saman. Við söfnuðum tveimur milljónum fyrir þessum peysum og lærðum mjög margt af þessu, við hönnuðum lógóið, gerðum heimasíðuna og svona mætti lengi telja. Við erum öll að útskrifast og erum vonandi tilbúin eftir þessa flottu starfsendurhæfingu. Þegar næsti hópur kemur inn mun hann vonandi halda áfram með þetta þarfa verkefni. Vonandi verður yngri aldurshópur tekinn fyrir næst, ég tel að þeim mun fyrr sem brýnt er fyrir börnum um skaðsemi eineltis, þeim mun betra,“ sagði Erlingur að lokum.

Pétur Ragnar Pétursson ásamt hluta af nemendahóp sínum.