Einbýlishús í Njarðvík eldi að bráð
Einbýlishús að Hæðargötu 6 í Njarðvík varð eldi að bráð skömmu fyrir kl. 11 í morgun. Þegar slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kom á staðinn logaði mikill eldur í loftum og aðkoman ljót að sögn Sigmundar Eyþórssonar, slökkviliðsstjóra. Tveir slökkviliðsmenn fóru í fyrsta útkallið þar sem sjúkrabifreið var í útkalli á sama tíma. Þeim tókst að ráða niðurlögum eldsins með háþrýstingi á skammri stundu.Íbúar hússins voru allir heima þegar eldurinn kom upp. Þeir náðu allir að bjarga sér út úr brennandi húsinu og varð ekki meint af. Eldsupptök eru ekki ljós á þessari stundu en rannsóknardeild lögreglunnar í Keflavík fer með rannsókn brunans. Ljóst er að tjón er mikið, bæði af eldi og reyk.
Myndin: Slökkviliðsmaður að störfum inni í húsinu. Rúður bæði að framan og aftan sprungnar eins og sjá má á myndinni. VF-mynd: Hilmar Bragi
Myndin: Slökkviliðsmaður að störfum inni í húsinu. Rúður bæði að framan og aftan sprungnar eins og sjá má á myndinni. VF-mynd: Hilmar Bragi