Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Einbeitir sér að Reykjanesskaganum
Föstudagur 12. apríl 2013 kl. 10:04

Einbeitir sér að Reykjanesskaganum

Stofnuð hefur verið ferðaskrifstofa á Reykjanesi sem einbeitir sér að því að selja Reykjanesskagann sem áfangastað og afþreyingu fyrir ferðamenn. Ferðaskrifstofan Travice fékk opinbera viðurkenningu og starfsleyfi Ferðamálastofu þann 4. apríl 2013. Stjórnarformaður og aðalhvatamaður er Sævar Baldursson sem jafnframt er formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja. Aðsetur ferðaskrifstofunnar verður á Vesturbraut 12 Reykjanesbæ í húsakynnum Hópferða Sævars.

Að sögn Sævars er markmið með rekstri ferðaskrifstofunnar að efla ferðaþjónustu á Reykjanesi.

„Við sjáum gífurleg tækifæri hérna sem því miður hafa verið vannýtt allt of lengi. Hvaða vit er í því að horfa á hundruð þúsunda ferðamanna renna hér í gegn án þess að skoða þann aragrúa ferðamannastaða sem hér er í boði? Við ætlum okkur einfaldlega að ná í bita af þeirri stóru köku. Hér er nefnilega svo ótrúlega margt upp á að bjóða. Við leitum eftir samstarfi við sem flesta því trú okkar er sú að því betur sem fólk vinnur saman þeim mun betri verður árangurinn. Það er svolítið undir okkur komið að nýta tækifærin. Þar mun Travice gegna  mikilvægu hlutverki,“ segir Sævar í samtali við Víkurfréttir.

Auk almennrar þjónustu í ferðamennsku mun Travice taka að sér að undirbúa og skipuleggja ráðstefnur hér á Suðurnesjum. Þegar eru komnar tvær slíkar í vinnslu.

„Við búum yfir frábærri aðstöðu til að halda ráðstefnur. Slíkt kostar mikinn undirbúning og nákvæma vinnu. Þar býr Travice yfir góðri þekkingu fagfólks og bjóðum við þjónustu okkar á því sviði en leitum samstarfs við þá sem á þarf að halda hverju sinni,“ segir Sævar.

„Ferðaþjónustan er öflugasta atvinnugreinin hér á svæðinu og við viljum nýta tækifærin með henni til hins ýtrasta fyrir svæðið,“ sagði Sævar Baldursson að endingu.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024