Einar Bárðar vill kaupa Rás 2
Athafnamaðurinn og útvarpsstjóri Kanans, Einar Bárðarson, ætlar í dag að senda Páli Magnússyni útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins erindi þess efnis að Einar fái að kaupa Rás 2. Einar segir í samtali við dv.is í gærdag að hann sjái fyrir sér slá megi tvær flugur í einu höggi með þessu. Kaninn fengi með þessu alvöru dreifikerfi og létt yrði á rekstri RÚV með að annað hvort pakka saman Rás 2 eða sameina stöðina Rás 1.
„Ég ætlaði að senda þetta bréf í síðustu viku en komst ekki í það,“ segir Einar við dv.is aðspurður um áform sín. Hann segir að tilboð hans hljóði upp á að hann kaupi Rás 2, eða að RÚV myndi leigja Kananum græjurnar og aðgang að dreifikerfinu. „Svona rétt á meðan þeir rétta reksturinn af,“ bætir Einar við leiguhugmyndina.
Aðspurður hvert verðmat hans sé á Rás 2 svarar Einar að bragði: „Hvers virði er það fyrir þjóðina að halda uppi taprekstrinum á RÚV? Auðveldast væri líklega að rétta manni þetta. En nei, ég býst nú við að þurfa að borga eitthvað fyrir þetta,“ segir Einar af fullri alvöru.