Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Eina stóriðja landsins án sérkjarasamninga
Föstudagur 29. júlí 2016 kl. 09:54

Eina stóriðja landsins án sérkjarasamninga

Kísilver United Silicon gerir almenna samninga við starfsfólk - Erfitt að manna verksmiðjuna að mati verkalýðsforingja

Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, segir það mikil vonbrigði að United Silicon og Samtök atvinnulífsins muni ekki ætla að gera sérkjarasamninga við starfsmenn kísilverksmiðjunnar sem er að rísa í Helguvík. Fyrir vikið verði verksmiðjan eina stóriðjan á Íslandi sem ekki gerir slíka samninga við starfsfólk sitt. Hann gerir ráð fyrir því að erfitt verði að manna verksmiðjuna nema með erlendu vinnuafli.

„Við áttum fund með United Silicon sem fjallaði um kaup og kjör starfsmanna, en þeir fengu Samtök atvinnulífsins til þess að annast sín mál. Þegar ég hef svo rætt málið við talsmann Samtaka atvinnulífsins þá segir hann mér að það sé ekki áhugi af þeirra hálfu fyrir því að gera sérkjarasamninga. Þeir ætla að keyra verksmiðjuna á almennum kjarasamningum,“ segir Kristján og bætir við að ekkert hafi breyst í þeim málum síðan þessar viðræður áttu sér stað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það er mín skoðun að þá verði mjög erfitt að manna verksmiðjuna. Það vill þá oft verða lausnin að fá útlendinga til þess að sinna störfunum sem erfitt er að manna.“ Kristján vill þó ekki kveða upp dóm um hvort að svo verði hjá United Silicon. Hann hefur heyrt af því að verið sé að ráða mannskap í verksmiðjuna en hefur engar upplýsingar fengið um kjör þeirra. „Ef niðurstaðan verður sú að þessi verksmiðja verður mönnuð meira og minna með innfluttu vinnuafli, þá er til lítils barist að fá þetta hingað í Helguvíkina. Þá er alveg óþarfi að fara bæði splitt og spíkat til þess að fá hér atvinnu ef menn vilja ekki standa við fögur fyrirheit um að þetta séu vel launuð störf. Hvar eru þau störf? Þau virðast ekki vera fyrir hendi.“

Sérkjörin fela oftast í sér ákvæði um vaktir og vinnutíma sem verður til þess að fólk sækir í slík störf. Sérkjarasamningar eru fyrir hendi í álverunum í Straumsvík, Grundartanga og á Austurlandi. „Það yrði niðurstaðan að þetta væri eina stóriðjan á landinu sem væri ekki með slíka samninga. Það eru mér vonbrigði að þeir ætli að tækla málin svona miðað við fyrri yfirlýsingar um að þarna eigi að vera vel launuð störf.“