Ein taska á hverri sekúndu
Nýtt farangurflokkunarkerfi sem tekið verður í notkun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar næsta vor, mun afkasta um einni tösku á hverri sekúndu. Það eru þreföld afköst samanborið við núverandi kerfi. Miklar endurbætur eru fyrirhugaðar við innritunarsal FLE á næstu mánuðum.
Fjölgun flugfarþega hefur verið mikil á síðustu árum og verður henni mætt með því að fjölga innritunarborðum úr 25 í 41 eða um 16 borð í framkvæmdum þeim sem nú standa yfir í FLE og ráðgert er að ljúka á næsta ári. Miklar biðraðir myndast of á tíðum í innritunarsalnum eins og nú er ástatt. Sjálfsafgreiðslustöðvar þær sem nýverið voru teknar í notkun taka ekki kúfinn af þessari umferð nema að litlu leyti. Engu að síður hafa þær reynst mjög vel enda þykja þær einfaldar í notkun og þægilegar viðfangs.
Breytingum á innritunarsalnum á að vera lokið næsta vor. Samhliða þeim verður nýtt sjálfvirkt farangursflokkunarkerfi tekið í notkun, sem mun þrefalda afköstin við flokkunina frá því sem nú er. Það mun gegnumlýsa og flokka sjálfvirkt allan farangur brottfarar- og skiptifarþega og anna allt að 3.600 töskum á klukkustund sem gerir eina tösku á hverri sekúndu. Til samaburðar þá afkastar gamla kerfið um 1.200 töskum á klukkustund og hefur ekki undan á álagstímum.
Mynd: Það er oft mikil mannþröng í innritunarsal FLE en það stendur allt til bóta. VF-mynd:elg