Ein stærsta tónlistarhátíð landsins í Reykjanesbæ í sumar
Til stendur að halda heljarinnar tónlistarhátíð í miðbæ Reykjanesbæjar dagana 7. -10. júní næstkomandi. Flestir þekktustu og vinsælustu tónlistarmenn landsins hafa þegar boðað komu sína á hátíðina sem skipuleggjendur segjast ætla að halda árlega. Ólafur Geir Jónsson og Pálmi Þór Erlingsson eru forsprakkar hátíðarinnar og hafa þeir fengið Smára Guðmundsson úr hljómsveitinni Klassart til liðs við sig við undirbúning þessarar veigamiklu hátíðar sem ber nafnið Keflavík Music Festival.
Yfir 100 atriði verða á dagskrá og meðal þeirra sem hafa þegar verið kynntir til leiks eru Retro Stefson, Úlfur Úlfur, Raggi Bjarna, Dikta, Sólstafir, Jón Jónsson og Valdimar.
Óli Geir sagði í spjalli við Víkurfréttir að hugmyndin hafi kviknað í kjölfar þess að bæði Airwaives og Aldrei fór ég Suður hátíðirnar hafi slegið rækilega í gegn og honum fannst vanta svona viðburð í Bítlabæinn.
„Þetta er búið að sitja í mér í 1-2 ár. Þar sem þetta er mikill tónlistarbær þá fannst mér vanta eitthvern stóran tónlistarviðburð hér í bæ eins og þessar hátíðir,“ segir Óli en honum fannst skrítið að engin slík hátíð væri hér í aðal tónlistarbænum.
„Í fyrstu átti þetta nú bara að vera mjög lítil hátíð, hugsuð út frá einum skemmtstað. Svo loks þegar maður fór að teikna þetta upp og skipuleggja þá vildi maður alltaf hafa þetta stærra og stærra, þetta vindur alltaf uppá sig. Maður verður líka að passa að fara ekki framúr sér og hafa þetta of stórt þannig ég ákvað að taka bara staðina í miðbæ Keflavíkur og einblína á þá til þess að fá menningu í miðbæinn og rölt á milli staða,“ segir Óli.
Hátíðin fer fram í miðbæ Reykjanesbæjar á helstu skemmtistöðum bæjarins. Verslanir, veitingarhús og bæjarfélagið verða með í stemningunni en öll flóran af tónlistarfólki kemur fram, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Óli segir þetta vera gullið tækifæri fyrir nýja og óþekkta tónlistarsnillinga til að koma sér á framfæri og hefur fjöldi hljómsveita sett sig í sambandi við þá félaga.
Verið er að vinna í málum varðandi gistingu þar sem hótel eru jafnan mikið bókuð á þessum tíma en Óli segir að boðið verði upp á rútuferðir alla dagana frá Reykjavík. En hvað mun kosta á svona hátíð? „Það er eitthvað sem við erum búnir að hugsa mikið um og höfum leitað til margra varðandi það. Ef þú skoðar t.d. aðrar hátíðir eins og Airwaves, Bestu Útihátíðina og Þjóðhátíð, þá kostar armband þar milli 10-20 þúsund krónur. Við ætlum alls ekki að fara í þann pakka, við verðum mun ódýrari en það,“ segir Óli en loka verð er ekki komið á hreint.
Verður þetta eingöngu á kvöldin eða daginn líka?
„Upprunalega átti þetta bara að vera á kvöldin en núna erum við með alls 100 hljómsveitir/tónlistarmenn sem eru að koma fram þannig að við ætlum að reyna fá þá til þess að troða upp inn í búðunum líka yfir daginn. Þetta er eitthvað sem við erum að vinna í. Eins ætla Klassart og Valdimar að taka að sér að fara í alla leikskólana hér í bæ, sem eru 10 talsins. Þar ætla þau að syngja fyrir krakkana og foreldra, það fannst okkur mjög skemmtileg hugmynd.“
Nú eru flestir vinsælustu tónlistarmenn landsins búnir að bóka sig, var ekkert erfitt að fá allt þetta fólk til að koma?
„Ég er búinn að halda allskonar viðburði víðsvegar um landið en aldrei eins stóran í sniðum og þennan. En sú reynsla sem maður hefur frá því hjálpaði mikið til þegar kom að þessu verkefni. Ég þekki marga af þeim sem eru að koma fram, fékk þá með mér í lið við þessa hátíð og þaðan fór boltinn að rúlla. Það er samt auðvitað hellings vinna á bakvið það að fá öll þessi bönd. Þessir snilldar tónlistarmenn sem eru að koma elskuðu hugmyndina um Keflavík Music Festival, allir svöruðu játandi.“
Hvers vegna vildirðu halda þetta hérna í Reykjanesbæ?
„Flottasta tónlistarfólkið kemur héðan, það er bara þannig. Hljómar, Hjálmar, Valdimar, Of Monsters and Men, Klassart og lengi gæti ég haldið áfram, það bara vantaði svona hátíð í bæinn, það er önnur ástæðan. Ein ástæðan er einfaldlega sú að ég er nú héðan, þekki vel til hérna og það er auðveldara og skemmtilegra að gera þetta hér á heimavelli,“ segir Óli Geir.
Allar nánari upplýsingar um þessa spennandi hátíð má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar - www.keflavikmusicfestival.com
Myndir: Að ofan er hljómsveitin Valdimar og að neðan er Óli Geir.