Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. stofnað: Eignir uppá 12 milljarða
Klukkan 11 í morgun var skrifað undir stofnsamning Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. en að félaginu standa Reykjanesbær, Seltjarnarneskaupstaður, Landsbanki Íslands og Íslandsbanki, auk Garðabæjar, Orkuveitu Reykjavíkur og fleiri aðila sem standa í viðræðum um aðild að félaginu. Böðvar Jónsson formaður Bæjarráðs Reykjanesbæjar sagði í samtali við Víkurfréttir að tilgangur félagsins væri að eiga allar almennar fasteignir í sveitarfélögunum, reka þær og sjá um viðhald þeirra: "Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur nú þegar samþykkt stofnun félagsins, en endanleg útfærsla á endurleigu eignanna verður afgreidd í bæjarstjórn eftir áramót," sagði Böðvar. Verðmæti fasteigna félagsins er um 12 milljarðar króna, en hver stofnaðili á 25% hlut í félaginu og er hlutafé hvers aðila verður 525 milljónir króna.