Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Eignaaukning upp á 285 milljónir, segir meirihlutinn. Útgjaldaþensla, segir minnihlutinn
Miðvikudagur 19. apríl 2006 kl. 11:29

Eignaaukning upp á 285 milljónir, segir meirihlutinn. Útgjaldaþensla, segir minnihlutinn

Minnihlutinn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar telur að rekstur bæjarstjóðs hafi einkennst af mikilli útgjaldaþenslu umfram raunverulegar tekjur, af því er segir í bókun sem hann lagði fram á bæjarstjórnarfundi í gær. Því er haldið fram af hálfu minnihlutans að rekstrartap bæjarsjóðs, að teknu tilliti til fjármagnsliða, verði tæpur 1.5 milljarður á kjörtímabilinu. Meirihlutinn bendir hins vegar á að eiginfjárhlutfall hafi hækkað, eignir aukist um 485 milljónir og þessi styrking á fjámálum sveitarfélagins hafi tekist þrátt fyrir gríðarlega uppbyggingu.

 „Þrátt fyrir sölu eigna uppá tæpa 4 milljarða hafa lán einungis verið greidd niður um tæpar 800 milljónir. Sú hagkvæmni sem átti að nást með sölu eigna og endurleigu þeirra hefur því ekki náðst, þar sem skuldir hafa ekki verið lækkaðar eins og gert var ráð fyrir“, segir í bókun sem Guðbrandur Einarsson lagði fram fyrir hönd minnihlutans.
Þar segir ennfremur: „Leigugreiðslur ársins 2005 námu tæpum 450 milljónum og fara vaxandi. Innisundlaug við Sunnubraut mun bætast við á þessu ári og er mánaðarleiga 4,7 milljónir á mánuði, m.v. gengi evru í morgun. Þá kemur fram í 3ja ára fjárhagsáætlun sem nú er komin fram að gert er ráð framkvæmdum upp á rúma 2 milljarða. Húsaleigugreiðslur Reykjanesbæjar stefna því í að verða rúmar 700 milljónir króna nái þessar áætlanir fram að ganga.
Sjálfstæðismenn halda því fram að eiginfjárstaða sveitarfélagsins hafi batnað á þessu kjörtímabili og það má til sanns vegar færa, en hvaðan kemur þessi viðsnúningur.
Sala á fasteignum og vatnsveitu hefur skilað rúmum milljarði inn í rekstur bæjarsjóðs sem jafnframt hefur haft jákvæð áhrif á eiginfjárstöðu hans.
Breyting á reikniskilavenjum árið 2002 nýttist einnig sjálfstæðismönnum, því þá var hægt að færa hlutdeildartekjur Hitaveitu Suðurnesja að frádregnum arði til hækkunar á eigið fé samstæðunnar eða um 1.5 milljarð króna.
Allt tal um snilli núverandi meirihluta í fjármálastjórnun eru því úr lausu lofti gripnar og það er alveg ljóst að staða sveitarfélagsins hefur versnað verulega á þessu kjörtímabili þrátt fyrir fögur fyrirheit sjálfstæðismanna um ábyrga fjármálastjórn“.

Í bókun sem Árni Sigfússon, bæjarstjóri, lagði fram fyrir hönd meirihlutans segir að samkvæmt endurskoðuðum ársreikningum bæjarins hafi skuldir hans hækkað á kjörtímabilinu um 62 milljónir og eignir aukist um 485 milljónir. Ennfremur hafi eiginfjárhlutfall hækkað úr 27% í 29% á sama tíma.

„Þessi styrking á fjármálum Reykjanesbæjar hefur tekist þrátt fyrir gríðarlega uppbyggingu í bæjarfélaginu og styrkingu á þjónustu leikskóla, grunnskóla og fjölskylduþjónustu
Heildarskuldir á hvern íbúa í Reykjanesbæ voru kr. 740 þúsund árið 2005, þegar þær eru 950 þúsund kr. í Hafnarfirði, 850 þúsund kr. á Akureyri og yfir ein milljón kr. í Reykjavík.
Þrátt fyrir gífuryrði minnihlutans tala þessar tölur skýrasta máli um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins“,
segir í bókun meirihlutans.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024