Fréttir

Eiginmaður Silju Daggar á hvalveiðum
Fimmtudagur 26. maí 2016 kl. 16:03

Eiginmaður Silju Daggar á hvalveiðum

Keypti bát og hefur þegar veitt tvær hrefnur

Þröstur Sigmarsson eiginmaður Njarðvíkingsins Silju Daggar Gunnarsdóttur þingkonu Framsóknarflokks, hefur fest kaup á hvalveiðibát og hyggst stunda á honum hrefnuveiðar. Stundin.is greinir frá þessu en þar er sagt frá því að Þröstur hafi þegar veitt tvær hrefnur að undanförnu.

Ekkert fékkst uppgefið um kaupverð á bátnum sem heitir Rokkarinn KE og var áður í eigu Útgerðarfélagsins Fjarðar ehf. þar til um haustið 2013. Hvalveiðifyrirtæki Þrastar heitir Runo ehf. og sat Silja Dögg í stjórn þess þar til sumarið 2015 þegar dóttir þeirra settist í stjórn félagsins. „Ég er auðvitað gift manninum en ég kem ekki að rekstrinum. Ég á alveg nóg með mína vinnu enda hef ég enga þekkingu á þessu. Þannig að einu hagsmunir mínir í fyrirtækinu eru þeir að ef það gengur vel þá höfum við meiri tekjur fyrir heimilið, sem er auðvitað gott fyrir okkur öll,“ sagði Silja í samtali við Stundina.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í uppfærslu á Facebook greinir Silja frá hrefnuveiðum eiginmannsins.  „Er mjög ánægð með minn mann. Ég vona að hann veiði sem flestar hrefnur í sumar,“ segir hún m.a. á síðu sinni.