Eiginkonan horfði á þegar bátnum hvolfdi
Skipbrotsmennirnir af lóðsbátnum Auðunni voru hinir rólegustu þegar komið var með þá að landi eftir mikla lífsreynslu þegar bát þeirra hvolfdi á augabragði við björgunarstörf í innsiglingunni til Sandgerðis nú síðdegis. Fjölmargir áhorfendur í landi fylgdust skelfdir með því þegar bátnum hvolfdi. Meðal annars var eiginkona annars skipbrotsmannanna.
Togarinn Sóley Sigurjóns GK var dregin af strandstað skömmu fyrir kl. 17. Lóðsbátarnir Hamar frá Hafnarfirði og Auðunn frá Reykjanesbæ aðstoðuðu við björgunarstörf og var Auðunn við stefni togarans bakborðsmegin. Taug var í togarann sem átti að nota sem stýringu þegar togarinn losnaði af strandstaðnum. Togarinn losnaði snögglega og fór hratt út. Við það kom átak á taugina í Auðunn sem kipptist til og fór fljótlega á hliðina og hvolfdi svo.
Tveir menn voru um borð í lóðsbátnum þegar honum hvolfdi. Annar þeirra var úti á dekki og hann komst strax í nálægan björgunarbát. Hinn var inni í stýrishúsinu við stjórntækin og hann var þar í 1-2 mínútur eftir að bátnum hvolfdi. Þá komst hann út og var bjargað úr sjónum af björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Bátur Landsbjargar flutti mennina í land þar sem þeir fengu aðhlynningu þar til sjúkrabílar komu úr Reykjanesbæ og fluttu mennina á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar.
Mennirnir voru hinir rólegustu þrátt fyrir lífsreynsluna og ómeiddir. Þeim var hins vegar brugðið eins og reyndar fjölmörgum áhorfendum sem fylgdust með atvikinu með skelfingu af brimvarnargarðinum við Sandgerðishöfn. Meðal annars fylgdist eiginkona annars þeirra með atvikinu af brimvarnargarðinum og var að vonum brugðið þar sem ekki sást með góðu móti úr landi hvort mönnunum hafði verið bjargað. Það voru því fagnaðarfundir þegar skipbrotsmenn komu í land.
Fagnaðarfundir þegar eiginmaðurinn kom í land eftir óvænta lífsreynslu þegar lóðsbáturinn sökk.
Á efri myndinni er annar maðurinn, sá sem var inni í stýrishúsi lóðsbátsins í 1-2 mínútur eftir að bátnum hvolfdi.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson