Eigið fé SPKEF var neikvætt um 11,2 milljarða um áramótin
Í hádeginu var undirritaður samningur milli fjármálaráðherra og Landsbanka Íslands um yfirtöku og samruna Landsbankans við Spkef sparisjóð. Fjármálaeftirlitið (FME) hefur á fundi sínum fallist á erindi fjármálaráðuneytis um að það heimili sameininguna á grundvelli VI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Eftirfarandi er tilkynning fjármálaráðuneytisins vegna málsins.
Spkef sparisjóður var stofnaður af fjármálaráðuneytinu 22. apríl 2010 samkvæmt heimild í 1. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Var Spkef sparisjóður stofnaður í því skyni að taka við eignum og innstæðuskuldbindingum Sparisjóðsins í Keflavík samkvæmt ákvörðun FME þar um. Frá því að FME yfirtók rekstur Sparisjóðsins í Keflavík og færði innstæður og eignir hans yfir í Spkef sparisjóð hefur fjármálaráðneytið unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu hins nýja sparisjóðs.
Sú vinna hefur verið þríþætt:
- í fyrsta lagi hefur verið unnið í samræmi við ákvæði 11. töluliðar ákvörðunar FME að því að semja við slitastjórn Spariðsjóðsins í Keflavík um uppgjör vegna yfirtekinna eigna og skulda.
- í öðru lagi hefur verið unnið að því að leggja mat á fjárþörf Spkef sparisjóðs til að sparisjóðurinn uppfylli kröfur FME um eigið fé.
- í þriðja lagi hefur verið unnið að því af hálfu Bankasýslu ríkisins að leggja mat á rekstrarhæfi Spkef sparisjóðs.
Með minnisblaði fjármálaráðherra til ríkisstjórnar þann 1. mars 2011 var lagt til, á grundvelli samráðs milli fjármálaráðuneytis og Bankasýslu ríkisins, að áform um fjármögnun Spkef sparisjóðs yrðu endurskoðuð og lagt mat á kosti þess að sameina sparisjóðinn við NBI hf. Á grunni þessarar tillögu var starfshópi skipuðum fulltrúum Bankasýslunnar og ráðuneytis falið að leggja mat á kosti og galla við (a) endurfjármögnun Spkef sparisjóð og (b) samruna NBI hf. og Spkef sparisjóðs.
Starfshópurinn kynnti þann 3. mars 2011 fyrir fjármálaráðuneytinu að það væri niðurstaða hans að sameina ætti Spkef sparisjóð við NBI hf. í stað þess að fjármagna hann með sjálfstæðum hætti. Taldi starfshópurinn að með því yrði fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs lægri og rekstrarlegar forsendur fyrir starfssemi sparisjóðsins styrktust. Niðurstaðan byggði m.a. á greiningu á rekstrarmöguleikum sparisjóða og möguleikum til hagræðingar á bankamarkaði sem Bankasýsla ríkisins hafði unnið að um nokkurn tíma.
Í kjölfar þessa hófust viðræður milli fjármálaráðuneytisins og NBI hf. um yfirtöku og samruna við Spkef sparisjóð. Niðurstaða viðræðna náðist í dag með undirritun samnings þess efnis með fyrirvara um að FME fallist á að taka ákvörðun á grundvelli VI. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 161/2002.
Það er samdóma mat fjármálaráðuneytisins og Bankasýslunnar að aðstæður Spkef sparisjóðs séu knýjandi og fjármögnun hans þoli ekki frekari bið.
Mjög áríðandi sé að finna rekstri sparisjóðsins varanlegan farveg. Miðað við mat stjórnenda sparisjóðsins, sem kemur fram í bréfi dags. 25. febrúar s.l., var staða hans þannig um áramótin að eigið fé hans var neikvætt um 11,2 milljarða og samtals vantaði því 19,4 milljarða upp á að hann uppfylli kröfur FME um lágmarks eigið fé. Að auki hefur Spkef sparisjóður átt við verulegan og viðvarandi lausafjárvanda að etja og hafa viðskipti hans við Seðlabanka Íslands verið bundin skilyrðum um ábyrgð af hálfu ríkissjóðs vegna innstæðna. Af framangreindu er ljóst að rekstur og möguleikar Spkef sparisjóðs til að standa við skuldbindingar gagnvart innstæðueigendum og öðrum viðskiptamönnum er alfarið háð beinum stuðningi og ábyrgð af hálfu ríkisins.
Með þessari ráðstöfun er tryggt að útgjöld ríkissjóðs vegna Spkef takmarkst við það sem á vantar að heildareignir sparisjóðsins svari til innstæðna. Ríkissjóður mun ekki leggja sjóðnum til nýtt eigið fé, en nýtt eigið fé hefði þurft að nema 8,2 ma.kr. skv. mati Spkef..
Samruni Spkef sparisjóðs við NBI hf. raskar ekki uppgjöri milli Spkef sparisjóðs og fyrirrennara hans, Sparisjóðnum í Keflavík. Einnig er ljóst að samruninn hafi engin áhrif á rétt slitastjórnar Sparisjóðsins í Keflavík til aðgangs að gögnum og upplýsingum um mál sem þar eru til rannsóknar sem slitastjórnin eða aðrir kynnu síðar að vilja hefja rannsókn á.
Ljóst er að samruni Spkef við Landsbankann hefur umtalsverðar breytingar í för með sér fyrir starfrækslu sparisjóðakerfisins. Bankasýsla ríkisins mun á næstu vikum eiga samráð við einstaka sparisjóði og fjármálastofnanir um málefni sparisjóðanna, en Bankasýslan undirbýr stefnumörkun varðandi framtíðarfyrirkomulag á starfsemi þeirra sparisjóða sem Bankasýslan fer með eignarhluti í.
Landsbankinn hefur upplýst fjármálaráðuneytið um að hann hyggst hafa náið samráð við starfsmenn og heimaaðila á starfssvæði sparisjóðsins vegna þeirra breytinga sem nú verða. Hefur verið lögð á það áhersla af hálfu fjármálaráðherra að tekið verði ríkt tillit til atvinnu- og þjónustuhagsmuna á starfssvæði sparisjóðsins á Suðurnesjum og á norðvestanverðu landinu.