Eigið fé jákvætt um 879,6 milljónir
Eigið fé sveitarfélagsins Voga er jákvætt um 879,6 milljónir króna þrátt fyrir að hafa verið fært niður um rúmlega 700 milljónir vegna breytinga sem gera þurfti á ársreikningi 2009 eftir að hann kom til fyrri umræðu þann 23. mars. Því þurfti að taka hann aftur til fyrri umræðu í bæjarstjórn nú fyrir helgi.
Bæjarráð hafði samþykkt að leiðréttir yrðu eignarhlutir í samstarfsverkefnum á Suðurnesjum sem fært yrði til lækkunar á eigin fé. Jafnframt var samþykkt að afskrifa skuld hafnarsjóðs við aðalsjóð í gegnum eigið fé. Eigið fé A-hlutans lækkar því um rúmar 100,7 milljónir milli áranna 2008 og 2009 vegna þessara breytinga.
Jafnframt voru gerðar breytingar á ársreikningi í samræmi við álit Reikningsskila- og upplýsinganefndar um færslu leigusamninga fasteigna og annarra mannvirkja og um færslu á lóðum og lendum í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga.
Breytingarnar hafa áhrif á efnahagsreikning sveitarfélagsins um síðustu áramót, þannig að lóðarleigusamningar og réttindi sveitarfélagsins samkvæmt fasteignaleigusamningum við EFF og Búmenn eru færð til eignar, meðan skuldbindingar vegna sömu fasteignaleigusamninga eru færðar til skulda. Breytingarnar leiða til rúmlega 606 milljóna króna lækkunar á eigin fé sveitarfélagsins. Bætist þessi lækkun við rúmlega 100 milljóna áður samþykkta lækkun á eigin fé til að leiðrétta eignarhluti í samstarfsverkefnum á Suðurnesjum og afskrifta á skuld hafnarsjóðs við aðalsjóð.
Eigið fé sveitarfélagsins verður eftir breytingarnar jákvætt um 879,5 milljónir króna
Helstu niðurstöður samstöðureiknings eru eftirfarandi:
Tekjur 604.759.553 kr.
Gjöld 728.697.165 kr.
Rekstrarniðurstaða f/fjármagnsliði -123.937.612 kr.
Fjármagnsliðir 124.286.374 kr.
Rekstrarniðurstaða 348.762 kr.
Eignir 3.132.713.341 kr.
Skuldir og skuldbindingar 2.256.843.982 kr.
Þar af langtímalán með næsta árs afborgunum: 485.859.458 kr.
Veltufé frá rekstri 68.488.751 kr.
----
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Horft yfir Voga